Hurð skall nærri hælum

Jeppinn lenti á Nesjavallaæðinni. Mynd fengin af vef OR.
Jeppinn lenti á Nesjavallaæðinni. Mynd fengin af vef OR.

Betur fór en á horfðist þegar ökumaður jeppa missti stjórn á bílnum á Nesjavallaleið og hann lenti á Nesjavallaæðinni um síðustu helgi. Orkuveita Reykjavíkur segir að nokkur svipuð óhöpp hafi átt sér stað á síðustu árum.

Fram kemur á vef OR að óhappið hafi orðið sl. laugardag. Fram kemur, að vélfræðingur á bakvakt hafi verið kallaður út til að kanna aðstæður áður er reynt var að fjalægja jeppann undan pípunni. Um hana renni jafnan um eitt og hálft tonn af 85° heitu vatni á hverri sekúndu og þurfi sá ekki að kemba hærurnar sem lendi í þeim straumi ef pípan myndi rofna. Segir að bílstjórann hafi ekki sakað.

„Orkuveitan kann ferðalöngunum þakkir fyrir að tilkynna um óhappið. Í þau þrjú skipti, sem starfsmenn Orkuveitunnar vita af að svipuð óhöpp hafa orðið, hefur aldrei verið tilkynnt um ákeyrsluna og getur þá tjónið á pípunni orðið enn meira ef ekki er gripið inn í, svo sem til að rakaverja þar sem hlífðarkápan hefur rofnað.

Grundvallaratriðið er samt að fara varlega. Nokkuð er um að jeppafólk sé á ferðinni á þessum slóðum á vetrum, en engin þjónusta er við veginn að vetrarlagi og hann ekki ruddur,“ segir á vef OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert