Framsókn eykur verulega við sig

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 21 þingmann, Framsóknarflokkurinn nýtur talsvert meira fylgis nú en í síðustu kosningum og stjórnarflokkarnir fengju 16 þingmenn samanlagt, yrði gengið til kosninga núna.

Þetta sýnir ný skoðanakönnun sem gerð var fyrir Fréttastofu Stöðvar 2 og Fréttablaðið. Greint var frá niðurstöðum hennar í fréttatíma Stöðvar 2 nú í kvöld og niðurstöðurnar bornar saman við fyrri könnun frá 17. janúar.

Samkvæmt könnuninni er fylgi Sjálfstæðisflokksins nú 32%, en mældist 38% í fyrri könnuninni. Flokkurinn fengi því 21 þingmann yrði gengið til kosninga nú. Framsóknarflokkurinn mælist með 21% fylgi, en það var 13% í fyrri könnuninni, og fengi núna 14 þingmenn. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist 16%, en var 15% fyrir tveimur vikum og fengi flokkurinn 12 þingmenn.

Samfylkingin mældist með 12% en var með 20% í fyrri könnuninni og Vinstri græn tapa 4% frá fyrri könnun, fara úr 11% í 7%. Samkvæmt þessu fengi hvor stjórnarflokkurinn um sig átta þingmenn ef gengið yrði til kosninga núna.

Aðrir flokkar mældust með minna en 5% fylgi.

Skoðanakönnunin var gerð í gær og fyrradag. Við hana var, samkvæmt frétt Stöðvar 2, notuð aðferð við útreikningana sem miðar að því að leiðrétta þær skekkjur sem verða vegna óákveðinna kjósenda. 800 manns voru spurðir, en 45% þeirra neituðu að gefa upp afstöðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert