Göngukonan er komin í sjúkrabíl

Búið er að flytja göngukonuna, sem slasaðist í Esju fyrr í dag, í sjúkrabíl en fjallamenn björgunarsveitanna komu niður að vegi skömmu eftir klukkan hálfátta í kvöld. Búist er við því að allir björgunarmenn verði komnir niður af fjallinu um ellefuleytið í kvöld.

Aðgerðin var nokkuð umfangsmikil þar sem aðstæður voru mjög erfiðar en alls tóku um 50 manns þátt í henni, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.

Konan var í hópi rúmlega þrjátíu göngumanna. Að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörgu biðu þrjú þeirra hjá henni þar til aðstoð barst og eru þau nú öll á leið á slysadeild Landspítalans þar sem þau munu njóta aðhlynningar.

„Við erum ennþá með fólk í fjallinu, það voru settar upp tryggingar og línur og það þarf að ganga frá því og síðan komast niður. Ég býst við að allir verði komnir í hús eftir tvo til þrjá tíma,“ segir Jónas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert