Norðurslóðanetið stofnað formlega

Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri og Össur Skarphéðinsson …
Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Skapti Hallgrímsson

Norðurslóðanet Íslands var í dag stofnað formlega með undirritun samnings milli utanríkisráðuneytisins og Norðurslóðanetsins í rannsóknarhúsi Háskólans á Akureyri Borgum. Við sama tilefni var Dr. Natalia Loukacheva boðin velkomin til starfa sem fyrsti fræðimaðurinn sem gegnir Nansen prófessorsstöðu.

Norðurslóðanetið er hluti af sóknaráætlun landshluta sem Eyþing samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum ásamt utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og umhverfis-og auðlindaráðuneytinu hafa undirbúið í samstarfi við fjölmarga aðila sem tengjast norðurslóðamálum á Akureyri. Megintilgangur Norðurslóðanets Íslands er að auka sýnileika og skilning á málefnum norðurslóða sem og starfsemi aðila sem vinna að málefnum norðurslóða á Íslandi. 

Við móttökuna í dag fluttu utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson og Stefán Sigurðsson formaður stjórnar Norðurslóðanetsins og rektor Háskólans á Akureyri ásamt Pétri Þór Jónassyni framkvæmdstjóra Eyþings stutt ávörp.

Nansen prófessorsstaðan sem Natalia Loukacheva mun gegna næsta árið er liður í samstarfssamningi sem utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrituðu 29. september 2011 á Akureyri. Staðan kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista. Hún er veitt til eins árs í senn framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Natalia er meðal fremstu sérfræðinga í málefnum norðurslóða hvað varðar lög, stjórnmál og stjórnsýslu og hefur gefið út fjölmargar greinar og bækur um það efni.

Nýráðinn framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins er Embla Eir Oddsdóttir sem hefur um langt skeið unnið að verkefnum og rannsóknum er snúa að málefnum norðurslóða. 

Nýráðinn framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins, Embla Eir Oddsdóttir, til vinstri, og Natalia …
Nýráðinn framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins, Embla Eir Oddsdóttir, til vinstri, og Natalia Loukacheva, fyrsti Nansen prófessorinn við HA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert