Lífeyrissjóðurinn á ekki hlut að máli

Hús verslunarinnar.
Hús verslunarinnar. Ómar Óskarsson

Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært fyrrverandi starfsmann Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum sem tengjast persónulegum gjaldmiðlaviðskiptum viðkomandi.

Viðskiptablaðið, vb.is, greinir frá því að maðurinn sé ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum vegna vantalinna tekna upp á tæpar 600 milljónir króna á árunum 2006 til 2008 og undanskots á sköttum upp á 60 milljónir króna. Þar kemur fram að starfsmaðurinn var umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði en hann gerði 584 gjaldmiðlasamninga á þessum þremur árum. Á sama tíma vann hann á eignastýringarsviði Lífeyrissjðs verslunarmanna. 

Ákæran var gefin út 22. janúar síðastliðinn og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna koma eftirfarandi á framfæri:

  • Lífeyrissjóður verzlunarmanna, stjórnendur hans eða aðrir starfsmenn eiga  enga aðild að málinu.
  • Starfsmaðurinn fyrrverandi notaði ekki eignir sjóðsins sér til fjárhagslegs ábata og ekki er um það að ræða að athæfi hans hafi rýrt fjárhagslega hagsmuni sjóðsins.
  • Umræddum viðskiptum var haldið leyndum fyrir stjórnendum og öðrum starfsmönnum sjóðsins, og komu hvergi fram í gögnum sem sjóðurinn hefur aðgang að.
  • Ef starfsmaður sjóðsins tilkynnir ekki um slík viðskipti sem hér er um að ræða er það  brot á verklagsreglum sjóðsins um verðbréfaviðskipti starfsmanna. Ef vitneskja hefði verið um það, hefði það leitt til uppsagnar viðkomandi starfsmanns, en hann hætti störfum hjá sjóðnum sumarið 2009.

Stjórn og stjórnendur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna líta það mjög alvarlegum augum ef starfsmenn misnota með framangreindum hætti það traust sem þeim er sýnt.

Strangar verklagsreglur gilda um verðbréfaviðskipti starfsmanna. Undanfarin ár hafa þær reglur verið endurskoðaðar, innra eftirlit hert og starfsfólk markvisst  upplýst um skyldur sínar og ábyrgð, allt í því skyni að tryggja sem best  að ekki bregði útaf góðum starfsháttum hjá sjóðnum, segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert