Vinningshafinn í dásamlegu losti

„Mér líður eins og ég sé staddur í kvikmynd og að ég sé aðalleikarinn,“ sagði eigandi vinningsmiðans í Víkingalottóinu sem skilaði honum 126.947.850 krónum, sem jafnframt er hæsti vinningur í sögu Íslenskar getspár. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspár. Þar segir að vinningsmiðinn hafi verið keyptur lotto.is og sé 10 raða sjálfvalsmiði með Jóker og kostaði 900 krónur. Vinningshafinn á stóra fjölskyldu og býr í  Mosfellsbæ og fram kemur að öll fjölskyldan sé í dásamlegu losti yfir þessari heppni.

„Okkar maður sat við tölvuna á miðvikudagsmorguninn þegar hann fékk póst frá Íslenskri getspá þar sem verið var á minna á Víkingalottóið.  Hann dreif strax í að kaupa sér miða, valdi sjálfval og lokaði svo tölvunni og spáði ekki í þetta meir.  Síðar um daginn varð honum hugsað til miðans og sór þess eið að ef hann fengi stóran vinning myndi hann láta gott af sér leiða í samfélaginu.  Það er því ljóst að fleiri munu njóta góðs af vinningnum.  Fjölskyldan heyrði síðan í fjölmiðlum að vinningsmiðinn hefði verið keyptur á netinu og myndaðist mikil spenna við tölvuna á meðan verið var að athuga málin.  Og þegar ljóst var orðið að þau voru þessi heppnu var hoppað og dansað og frúin hefur víst ekki hætt að brosa síðan og það hefur verið lítið um svefn,“ segir í tilkynningunni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert