Verð eins og vígreif valkyrja

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mynd/Johannes Jansson/norden.org

„Birkir sagði hér í morgun að hann ætlaði líka að halda áfram í baráttunni með okkur og hann sagðist ætla að vera eins og grenjandi ljón. Þess vegna ætla ég að lofa ykkur því líka að ég ætla að vera með á fullu og ég ætla að vera eins og vígreif valkyrja,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, þegar hún hélt formlega kveðjuræðu sem þingmaður á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag. Með þessu vísaði Siv til kosningabaráttunnar sem framundan er og komandi flokksþinga.

Siv lætur af þingmennsku í vor eftir 18 ára setu á Alþingi. Þar áður var hún bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi. Siv gegndi um tíma embætti umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra og var samstarfsráðherra Norðurlands í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

„Það eru tímamót framundan. Það er kosningabarátta að fara í hönd og það er breytinga að vænta. Það skiptir mjög miklu máli hverjir stjórna. Það þekkjum við afar vel. Við þessi sem höfum reynslu af því í þessum flokki, bæði að stjórna og líka af því að vera í stjórnarandstöðu. Það skiptir máli hverjir stjórna. Það er tvennt sem skiptir höfuðmáli. Í fyrsta lagi eru það málefnin og í öðru lagi er það fólkið og hópurinn sem stendur á bak við fólkið, forystufólkið, sem hefur úrslitavald í því sambandi,“ sagði Siv í ræðu sinni.

Sett fjögur megin mál á oddinn

Hún sagði málefni Framsóknarflokksins skýr og að flokkurinn hefði valið fjögur megin mál til að vinna að. „Í fyrsta lagi er það skuldavandi heimilanna. Í öðru lagi atvinnumálin. Öryggi borgaranna og svo velferðarmálin, sérstaklega heilbrigðismálin. Þetta er allt mjög skýrt,“ sagði Siv.

Ríkisstjórn sundurlyndis og stöðnunar

„Fólk er þreytt á sitjandi ríkisstjórn. Þetta er ríkisstjórn sundurlyndis og stöðnunar. Hún hefur staðnað dag frá degi síðan hún tók við og núna er nánast ekkert að ske,“ sagði Siv.

Þá sagði hún um þingstörfin framundan: „Ég get lofað ykkur því, því miður, að í þinginu, sem er ekki búið, þá mun nánast ekkert meira klárast þar. Staðan er orðin þannig á Alþingi Íslendinga.“

Hlakkar til að sjá nýja ríkisstjórn á Íslandi

„Það er ekkert annað fyrir okkur að gera en að einhenda okkur í kosningabaráttuna og það sem fyrst. Þannig nýtum við tímann sem best. Fólk vill breytingar. Það sjáum við núna á skoðanakönnunum. Fólk lítur til okkar og að hefur trú á okkur. Þess vegna hlakka ég mjög til kosningabaráttunnar sem er framundan og ég hlakka til þess að sjá nýja ríkisstjórn á Íslandi. Ríkisstjórn sem ég tel að framsóknarflokkurinn eigi að vera aðili að. Til þess að ná þeim árangri þá þurfum við að koma málum okkar mjög skýrt á framfæri og þar skiptið þið, flokkshjartað, höfuðmáli,“ sagði Siv í ræðu sinni.

„Ég lít mjög stolt um öxl“

Siv ræddi þau tímamót sem eru að verða í sínu lífi þegar hún lætur af þingmennsku. „Ég lít mjög stolt um öxl og er ánægð með dagsverkið. Þótt ég sé að hætta á þingi þá er ég ekki hætt í baráttunni fyrir flokkinn. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir samstarfið sem ég hef átt við ykkur í 23 ár flest sem hér eruð inni. Þetta hefur verið gjöfult samstarf. Það hefur verið ánægjulegt og maður á ógrynni minninga eftir þetta samstarf. Það hefur verið mikill heiður að fá að vinna með ykkur og ég ætla að gera það áfram,“ sagði Siv og fékk standandi lófaklapp í lok hennar. ipg@mbl.is

Siv Friðleifsdóttir hefur átt sæti á Alþingi síðan 1995.
Siv Friðleifsdóttir hefur átt sæti á Alþingi síðan 1995. mbl.is/Ómar
Siv Friðleifsdóttir er fyrrverandi samstarfsráðherra Norðurlanda og átt sæti í …
Siv Friðleifsdóttir er fyrrverandi samstarfsráðherra Norðurlanda og átt sæti í Norðurlandaráði um árabil. norden.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert