Grútarblautir ernir í Kolgrafafirði

„Við sáum tvo grútarblauta erni í gær og reyndum að ná þeim en þeir náðu að flögra í burtu. Í dag fórum við hópur saman og ætluðum að reyna að ná þeim en við fundum þá ekki aftur,“ segir Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, sem um helgina var í Kolgrafafirði.

Í gær varð Róbert einnig var við hóp æðarfugla, ein fjórtán stykki, sem greinilega voru grútarblautir. Einnig varð hann var við toppandarstegg sem var greinilega rennblautur og ófleygur. Róbert segir að engir fuglar hafi náðst um helgina, erfitt geti verið að ná til þeirra, t.d. hafi toppandarsteggurinn farið beina leið út í sjó þegar tilraun var gerð til að ná honum.

„Þetta lítur ekki nógu vel út. Við þurfum bara að halda áfram að fylgjast með og þegar þetta eru sjaldgæfari eða friðaðar tegundir reynum við að allt sem við getum til að ná til fuglanna,“ segir Róbert. Samkvæmt eftirlitsáætlunum eiga fulltrúar Náttúrustofu að fara í fjörðinn á fimm daga fresti en nú hefur verið farið tvo daga í röð. „Við stefnum á að fara aftur í síðasta lagi á fimmtudag nema við fáum ábendingu um blauta fugla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka