Hlutu varanlega áverka við Gúttó

Stólfóturinn afhentur á Árbæjarsafn í gær.
Stólfóturinn afhentur á Árbæjarsafn í gær. mbl.is

Um helgina var greint frá því að Árbæjarsafn hefði fengið að gjöf stólfót sem notaður var sem barefli á lögreglumenn í Gúttóslagnum í nóvember 1932. Í viðtali við mbl.is segir Þór Whitehead sagnfræðingur að ástæða sé til að rifja upp að lögreglulið Reykjavíkur hlaut heilmikla áverka í slagnum og mörg sár hefðu aldrei gróið.

Fyrir tveimur árum kom út bókin Sovét-Ísland óskalandið eftir Þór Whitehead sagnfræðing, en þar var m.a. fjallað um Gúttóslaginn 9. nóvember 1932 og greint frá því í fyrsta sinn á prenti að þrír lögregluþjónar hefðu orðið fyrir þvílíkum áverkum í Gúttóslagnum að þeir hefðu aldrei beðið þess bætur. Neyddust þeir til að hætta í lögreglunni. Nokkrir lögregluþjónar til viðbótar höfðu einnig orð á því að þeir hefðu aldrei náð sér fyllilega eftir barsmíðar í Gúttó þó að þeir héldu áfram lögreglustörfum.

Í samtali við mbl.is segir Þór að alls hafi 20 af 28 lögregluþjónum bæjarins  tekið þátt í slagnum og allir þeirra særst, auk þess sem lögreglustjórinn, Hermann Jónasson hlaut áverka. „Lögreglan var í raun lögð að velli í bókstaflegum skilningi,“ segir Þór. „Menn lágu eftir í blóði sínu, þar af 15 lögregluþjónar með höfuðáverka.  Það er kraftaverk að sumir þessara manna skyldu halda lífi eins og farið var með þá.“

Þór segir að lögregluþjónarnir þrír sem urðu öryrkjar eftir slaginn hafi þurft að líða þrautir upp frá þessu alla ævina. Heilsuleysi þeirra hafi líka komið illa niður á fjölskyldum að minnsta kosti tveggja þeirra, sem urðu að hætta í lögreglunni á kreppu- og erfiðleikatímum.

Ekki er ljóst hve margir óeirðamenn særðust í átökunum í Gúttó. Heimildir nefna fimm menn en enginn þeirra virðist hafa hlotið sár í líkingu við þau sem lögregluþjónarnir hlutu. Lögreglan hafi beitt gúmmíkylfum í átökunum en óeirðamenn notuðu ýmis trébarefli svo sem stólfætur.

Urðu að láta af störfum

Í bók Þórs, Sovét-Íslandi, kemur fram að einn þeirra lögregluþjóna, sem urðu fyrir mestum áverkum, Björn Vigfússon, hafi verið einn glæsilegasti íþróttamaður bæjarins. Hann átti löngum eftir að líða sára verki í maga og þurfti að liggja fyrir tímunum saman sárkvalinn. Engin meðöl virtust vinna á verkjunum. Jafnframt fékk hann oft sáran höfuðverk. Björn reyndi að harka af sér og starfaði áfram hjá lögreglunni fram til ársins 1940. Hann endaði sem gæslumaður við Landsbankann í Austurstræti og starfaði þar þangað til að hann fór á eftirlaun árið 1960.


Geir Finnur Sigurðsson barðist við mikil veikindi næstu átta árin, sem lýstu sér í heiftarlegum höfuðverkjaköstum sem drógu úr honum mátt. Hann varð að lokum að gefa lögreglustörf upp á bátinn árið 1940 og endaði sem gæslumaður í Búnaðarbankanum þar sem hann starfaði þangað til að hann lést árið 1967, þá 68 ára að aldri.

Margrímur Gíslason hlaut svöðusár á enni í Gúttóslagnum og beið þess aldrei bætur. Hann kenndi áfram „óstyrks og eyðilegheita yfir höfði.“ Í kjölfar læknismats var hann fluttur til í starfi og gerður að stöðvarmanni eða aðstoðarmanni varðstjóra. Árið 1940 var Margrímur fluttur í bifreiðaskráningu.

Til viðbótar þessum þremur sem beinlínis þurftu að leggja fyrri störf sín til hliðar vegna áverkanna sem hlutust í Gúttóslagnum voru nokkrir lögreglumenn sem töldu sig aldrei hafa beðið þess bætur að hafa tekið þátt í honum. Það sem lögreglumönnunum þótti verst var það að þeir sem höfðu valdið þeim og samstarfsfélögum þeirra miska var hælt sem hetjum, á meðan enginn þakkaði þeim sjálfum fyrir að hafa lagt líf sitt í hættu við að verja kjörna bæjarfulltrúa fyrir skipulögðu ofbeldi.

Mennirnir voru náðaðir

Í bók Þórs kemur jafnframt fram að Varnarlið verkalýðsins, sem var einkennisbúin bardagasveit á vegum Kommúnistaflokks Íslands, hafi átt veg og vanda af slagnum. Liðsmenn hennar voru á meðal þeirra, sem hlutu hlutu þyngstu dómana í Hæstarétti fyrir þær líkamsárásir sem lögreglumenn urðu fyrir. Þetta var m.a. staðfest í ítarlegri réttarrannsókn sem gerð var í kjölfar slagsins. Þá kemur fram í leyniskýrslu sem Brynjólfur Bjarnason, formaður Kommúnistaflokksins, sendi Komintern, alþjóðasambandi Kommúnista, að undir forystu Varnarliðs verkalýðsins hafi tekist „að afvopna lögregluna og margir lögregluþjónar voru illa slasaðir“.

„Varnarliðið svokallaða lék aðalhlutverkið í þessum átökum, það bjó sig sérstaklega undir þau og tók bæjarstjórnina í raun í gíslingu, eins og Brynjólfur nefndi líka í skýrslu sinni,“ segir Þór.

Í dómi Hæstaréttar sem féll í júní 1935 fengu liðsmenn Varnarliðs verkalýðsins og helstu forystumenn Kommúnistaflokksins óskilorðsbundna dóma fyrir þátttöku sína í slagnum, allt frá 30 dögum til sex mánaða. Kommúnistar gagnrýndu dóminn harðlega og stóðu fyrir undirskriftasöfnun þar sem fullrar náðunar hinna dæmdu var krafist. Hermann Jónasson, forsætis- og dómsmálaráðherra í stjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, óskaði fljótlega eftir því við Kristján konung X. að allir hinna dæmdu yrðu náðaðir  skilorðsbundið.

Frétt mbl.is: Fóturinn sat fastur í höfðinu

Björn Vigfússon var einn glæsilegast íþróttamaður Reykjavíkur fyrir Gúttóslaginn, en …
Björn Vigfússon var einn glæsilegast íþróttamaður Reykjavíkur fyrir Gúttóslaginn, en varð að hætta lögreglustörfum eftir hann. Ljósmynd/Úr einkasafni
Geir Finnur Sigurðsson varð að láta af lögreglustörfum árið 1940 …
Geir Finnur Sigurðsson varð að láta af lögreglustörfum árið 1940 vegna verkja sem rekja mátti til Gúttóslagsins. Ljósmynd/ Úr einkasafni
Margrímur Gíslason varð að hætta fyrri störfum sínum við lögregluna …
Margrímur Gíslason varð að hætta fyrri störfum sínum við lögregluna vegna örorku sem hlaust við Gúttó 1932. Ljósmynd/úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert