„Viðskiptatækifæri“ svikahrappa

Skilaboðin sem berast Íslendingum í gegnum sms.
Skilaboðin sem berast Íslendingum í gegnum sms.

Svikahrappar virðast enn herja á íslenska farsímanotendur því mbl.is fékk í kvöld fregnir af nokkrum slíkum sem fengið hafa send smáskilaboð með tilboðum um „viðskiptatækifæri“ sem skilað gætu milljónum Bandaríkjadala. Lögregla hefur áður varað við slíkum sendingum.

Það sem af er ári hefur lögregla tvisvar séð sig knúna til að senda út tilkynningar vegna slíkra sendinga. Fyrst í byrjun árs lögreglan á Suðurnesjum en henni bárust upplýsingar um að fólk fengi smáskilaboð þar sem því var tilkynnt að það hefði unnið stóra erlenda lottóvinninga. Þá var það lögreglan á Akureyri sem fékk síðar í janúar tilkynningar frá fólki, einnig vegna lottóvinninga.

Dæmi um skilaboð sem send hafa verið að þessu sinni, frá Nígeríu, má sjá á meðfylgjandi mynd. Þar segir að Hr. Chen frá kínverskum banka þurfi að ræða áríðandi viðskiptatækifæri sem gæti gefið 46 milljónir Bandaríkjadala í aðra hönd. Því næst er gefið upp netfang.

Um sams konar svindl er að ræða og tíðkast hefur í sambærilegum tölvupósti sem flætt hefur yfir og er orðinn alþekktur.

Embætti Ríkislögreglustjóra hefur margsinnis sent út viðvaranir til fólks af svipuðu tilefni.

Viðskiptatækifærið frá Kína kom úr nígerísku símanúmeri.
Viðskiptatækifærið frá Kína kom úr nígerísku símanúmeri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert