„Hún hefði drukknað á meðan“

„Ef við hefðum farið að ná í hjálp hefði hún bara drukknað á meðan,“ segir Guðrún Tinna Óskarsdóttir, tíu ára stelpa á Akureyri sem afrekaði það ásamt bestu vinkonu sinni að draga frænku Guðrúnar Tinnu og jafnöldru þeirra upp úr tjörn eftir að frænkan datt í gegnum ís og ofan í ískalt vatn, sem náði henni upp undir höku.

Sú sem datt gegnum ísinn heitir Þorbjörg Ósk Júlíusdóttir. Tjörnin sem um ræðir er í Naustahverfi, skammt austan við golfvöllinn á Jaðri. Vinkonurnar fóru í Bónus í ljósaskiptunum á mánudag og voru á leið heim til ömmu Þorbjargar þegar óhappið varð.

„Þær byrjuðu að labba út á tjörnina en ég sagði þeim að passa sig, þær gætu dottið ofan í því þetta er síki,“ sagði Þorbjörg þegar mbl.is hitti vinkonurnar þrjár að máli í dag við tjörnina. Hún gekk svo sjálf út á ísinn og segist hafa spurt í gríni: hver þorir næst bakkanum? „Þá labbaði ég óvart eitt skref fram, þær voru búnar að snúa sér við en heyrðu mig öskra, sneru sér við og öskruðu líka.“

Þorbjörg náði ekki niður á botn og segist hafa orðið mjög hrædd. „Það voru plöntur á botninum og ég upplifði að þær væru lifandi, með smágadda og væru byrjaðar að taka utan um fótinn og draga mig niður.“

Vinkonurnar sögðust líka hafa orðið hræddar en drifu sig samt til Þorbjargar, krupu á ísnum, og náðu að toga hana upp á nokkrum mínútum, að því er þær telja. Guðrún Tinna og Ásta Þórunn sögðu að dálítið erfitt hefði verið að draga vinkonu sína upp en þær væru býsna sterkar. Þær æfa nefnilega karate, allar þrjár, og verða sterkar af því. „Sérstaklega af því að maður þarf að hita svo mikið upp áður en æfingin byrjar,“ sagði Guðrún Tinna.

Eftir að Þorbjörg var komin á þurrt hljóp Ásta Þórunn heim til ömmu Þorbjargar og lét hana vita en Guðrún Tinna fór úr úlpunni og klæddi Þorbjörgu í hana. Allt fór því vel en Þorbjörgu var mjög kalt þegar heim kom, að sögn ömmu hennar og nöfnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert