Vísað frá vegna nýrra barnalaga

Heiðar Kristjánsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi forræðismáli vegna þess að aðilar máls fóru ekki í gegnum sáttameðferð. Reyna verður að leita sátta áður en dómsmál er höfðað, samkvæmt ákvæðum barnalaga sem tóku gildi um áramót. Reglur um slíka sáttameðferð voru hins vegar ekki settar fyrr en á dögunum.

Í málinu gerði varnaraðili þá kröfu að því yrði vísað frá vegna þess að ekki hafði verið leitað sátta fyrir málshöfðunina. Lögin hafi tekið gildi um áramót og ákvæð þeirra hafi því ótvírætt átt við í málinu, þar sem það var höfðað eftir gildistöku þeirra.

Sóknaraðili krafðist þess hins vegar að frávísunarkröfunni yrði hafnað enda hafi skylda foreldra til að leita sátta áður en dómsmál í forsjárdeilu er höfðað ekki verið komin til framkvæmda. „Það skýrist af því að samkvæmt nefndu ákvæði séu sýslumönnum ætlað að bjóða aðstoð við lögbundið sáttaferli en embætti þeirra séu ekki enn í stakk búin til að veita slíka aðstoð. Auk þess hafi ekki enn verið sett reglugerð um framkvæmd sáttaumleitana sem sé nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að koma henni í kring.“

Byggði sóknaraðili á því að aðilum máls væri ómögulegt að uppfylla áskilnað barnalaga um að leita sátta á þessu stigi máls.

„Ákvæðið er fortakslaust“

Í niðurstöðu dómsins segir að markmið sáttameðferðar sé að hjálpa foreldrum að semja um þá lausn máls sem barni sé fyrir bestu. Samkvæmt lögum beri þeim að reyna sáttaleið áður en unnt er að krefjast úrskurðar eða höfða mál. Ákvæðið er fortakslaust og leiðir því til þess að málum þar sem þessari skyldu hefur ekki verið sinnt áður en mál er höfðað verður sjálfkrafa vísað frá dómi,“ segir í úrskurðinum.

Þá er á það bent að þó svo að í lögunum sé kveðið á um að sýslumenn skuli bjóða aðilum sáttameðferð sé einnig hægt að leita til annarra sem hafi sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna. „Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að embætti sýslumanns ber lagaskylda til að bjóða aðilum máls sáttameðferð og framlögð gögn veita engar upplýsingar um að embætti sýslumanns sé ekki mögulegt að framfylgja þeirri skyldu sinni. Þá ligur jafnframt fyrir að samkvæmt nefndu ákvæði er einnig mögulegt að að leita sáttameðferðar hjá aðilum með tiltekna sérfræðiþekkingu utan sýslumannsembætta.“

Dómari segir þá að ekki verði séð að skortur á reglugerð komi í veg fyrir að ákvæðinu verði beitt. „Því er ekki fallist á að neitt sé fram komið í málinu sem bendi til þess að ómöguleiki eða miklir erfiðleikar séu á því að framfylgja framangreindu ákvæði.“

Reglur settar til bráðabirgða

Á vef innanríkisráðuneytis má sjá tilkynningu frá því í þar sem segir að settar hafi verið reglur um ráðgjöf og sáttameðferð samkvæmt ákvæðum barnalaga. „Með reglum þessum, sem ætlað er að gilda til bráðabirgða, er lagður grundvöllur undir störf sáttamanna í samræmi við breytingar á barnalögum sem öðluðust gildi 1. janúar sl.“ 

Þá segir í tilkynningunni að í reglunum sé kveðið á um hverjir geti veitt sáttameðferð aðrir en sýslumenn. 

„Markmiðið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að komast að samkomulagi um þá lausn ágreinings sem barni er fyrir bestu. Foreldrum er skylt að mæta á sáttafundi sem sáttamaður boðar til og þegar sáttameðferð fer fram á vegum sýslumanns skal að lágmarki bjóða einn sáttafund en þeir geta orðið allt að fjórir. Ef sérstaklega stendur á má fjölga þeim um allt að þrjá. Ef sættir takast ekki gefur sáttamaður út svokallað sáttavottorð sem gildir í 6 mánuði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert