Tilbúin að skoða þak á verðtryggingu

Katrín Júlíusdóttur fjármálaráðherra.
Katrín Júlíusdóttur fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag í umræðum um verðtryggingu, að hún væri tilbúin til að skoða hvort til greina kæmi að setja þak á verðtryggingu nýrra húsnæðislán.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, óskaði eftir umræðu um álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg. Hann sagði að miðað við þetta álit væri ekki hægt að draga aðra ályktun en að verðtryggð húsnæðislán hér á landi væru ekki í samræmi við reglugerðir ESB um neytendalán. Aðferðarfræðin sem viðhöfð hefði verið hér á landi við lánveitingar verðtryggða lána uppfyllti ekki kröfur löggjafar ESB í þessum efnum.

Katrín sagði að ráðuneytið væri að fara yfir þetta álit framkvæmdastjórnar ESB. Hún sagði erfitt að draga víðtækar ályktarnar úr þessu bréfi og benti á að í því væri tekið fram að ekki væri um bindandi álit að ræða.

„Samkvæmt neytendalánatilskipun Evrópusambandsins á að taka verðbólgu eins og hún er á þeim tíma með í útreikning á heildarlántökukostnað vegna lána sem falla undir tilskipunina og þar af leiðandi einnig á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Miða skal við að verðbólga haldist óbreytt út lánstímann.

Í bréfinu er tekið fram að samkvæmt tilskipuninni um óréttmæta skilmála frá 1993 sé verðtrygging heimil, en kveðið er á um að neytanda skuli kynntir lánaskilmálar tímanlega og þeir skýrðir með verði og helstu einkennum. Skilmálar skulu vera skýrir og á skiljanlegu máli og það felur m.a. í sér að vísitölutrygging skal útskýrð sérstaklega,“ sagði Katrín.

Verða að segja satt um gjaldmiðilinn

Katrín sagði að í nýju frumvarpi um neytendalán sem lægi fyrir þingi væru kröfur hertar og m.a. myndi þessi nýja löggjöf ná til lánveitinga Íbúðalánasjóðs.

Katrín sagði rétt að lánveitendur sem lánuðu verðtryggð lán til 40 ára hefðu ekki birt spá um verðbólgu út lánstímann, kannski vegna þess að þeir hefðu óttast að vera sakaðir um að tala niður gjaldmiðilinn í landinu ef þeir gerðu það. Það væri hins vegar kominn tími til að segja neytendum satt varðandi gengi gjaldmiðilsins.

„Varðandi þá spurningu hvort eitthvað hafi gerst nú sem kalli á bein inngrip inn í gildandi lánaskilmála, t.d. með þaksetningu á verðtryggingu þá er því til að svara að þetta er auðvitað mjög skammur fyrirvari og við þurfum að fara vel yfir alla þessa þætti og ég er tilbúin til að gera það. Það er auðveldara að gera þetta með ný lán en flóknara varðandi núgildandi lán, en við förum vandlega yfir það.“

„Evrusnuðið orðið tætt og illa lyktandi“

Allir sem tjáðu sig í umræðunni sögðust vilja afnema verðtryggingu, en ekki var full samstaða um hvaða leiðir ætti að fara til þess að ná þessu markmiði. Samfylkingarmenn sögðu að það yrði ekki gert nema að taka upp annan gjaldmiðil.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði Samfylkingarmenn vera haldna „sértrú“ og að sú sértrú myndi ekki nýtast heimilunum í landinu.

Margrét Tryggvadóttir tók undir að gjaldmiðilinn væri „handónýtur“, en hún gagnrýndi einnig harðlega hvernig ríkisstjórnin hefði haldið á málum frá hruni og vísað fátæku fólki á dómstólana frekar en að taka á vandanum.

Lilja Mósesdóttir sagði að engin þjóð í heiminum hefði farið í gegnum fjármálakreppu án þess að leyfa verðbólguskot, sem alltaf fylgdi banka- og gengishruns, að éta upp verðmæti lána. Krafan um almenna leiðréttingu lána hefði gengið styttra því hún hefði fjallað um að lánveitendur og lántakendur deildu með sér kostnaði við verðbólguskotið. Ríkisstjórnin hefði hins vegar ekki einu sinni treyst sér að ganga svo langt, heldur vísað fólki á dómstóla. Margir hefðu sem tóku gengisbundin lán hefðu orðið gjaldþrota vegna lána sem síðar hefði komið í ljós að voru ólögleg.

Gunnar Bragi gagnrýnd orð þeirra sem töluðu fyrir upptöku evru. Hann sagði að „evrusnuðið sem Samfylkingin vildi stinga upp í heimilin væri orðið tætt og illa lyktandi.“

Katrín Júlíusdóttir lauk umræðunni og sagði að hér á landi hefði verið boðið upp á þrjár gerðir lána, gengisbundin lán, verðtryggð lán og núna síðast óverðtryggð lán, sem margir væru nú að vara við. Hún sagði kominn tími til að ræða rót vandans. Hún sagði óboðlegt hjá formanni Framsóknarflokksins að hafna evrunni og segja svo þegar hann væri spurður um hvernig ætti að afnema verðtrygginguna að hann vildi setja málið í nefndi sem skilaði áliti síðar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert