Farþegum boðin áfallahjálp

Vél frá Icelandair.
Vél frá Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í upphafi lækkunar á flugi inn til Keflavíkurflugvallar bilaði eitt af þremur vökvaaflskerfum flugvélarinnar, sem var unnið úr í samræmi við gátlista, segir í tilkynningu Iclandair vegna flugatviks sem átti sér stað í flugi frá Kaupmannahöfn í gær. Neyðarstigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli vegna lendingarinnar.

 Aðflugið inn til Keflavíkur var eðlilegt fram að lokaaðflugi þegar truflun varð og aðflugsferillinn breyttist, segir í tilkynningunni. Flugmenn aftengdu sjálfstýringu, flugu hring og komu aftur inn til lendingar. Samkvæmt verklagsreglum lýsti flugstjóri yfir neyðarástandi meðan þetta ástand varði og var viðbragðsáætlun sett í gang í samræmi við  það.  Eftir lendinguna voru fulltrúar Rauða krossins mættir og var farþegum boðin áfallahjálp.   

 Enn liggja ekki fyrir upplýsingar um hvað olli truflun sem varð í aðfluginu en rannsókn var hafin strax í gærkvöldi sem m.a. fólst í því að taka flugrita flugvélarinnar til skoðunar.

Frétt mbl.is: Neyðarástandi lýst yfir vegna bilunar  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert