Algjör umskipti í veðrinu

Hlýindatímabili undanfarinna vikna lýkur á morgun, en þá er spáð miklu frosti, stormi og hvassviðri. Veðurstofan varar við stormi á norðvestanverðu landinu á morgun, aðrir landshlutar sleppa þá, en síðan færir stormurinn sig yfir allt landið á mánudaginn.

„Það verða algjör umskipti í veðrinu. Undanfarið höfum við verið í hlýjum sunnanáttum, það kom upp hagstæðasta staða fyrir hita á Íslandi; það settist hæð yfir Bretlandi og Suður-Skandínavíu og beindi til okkar hlýju lofti suður úr höfum. En núna fáum við kaldasta loft sem við getum fengið beint norðan frá,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Þetta verður umpólun

„Þetta verður umpólun og það óvenjulega við þetta er að kuldanum fylgir hvassviðri eða stormur. Það gengur í þetta fyrripartinn á morgun norðvestan til á landinu. Aðrir landshlutar sleppa á morgun, en svo fer þetta yfir allt landið á mánudaginn.“

Gert er ráð fyrir að vindur verði 18 - 23 m/s norðvestan til á morgun og að frost verði þar allt að 10 stig.

Að sögn Teits fylgir snjókoma þessum veðrabrigðum, hún verður aðallega bundin við norðanvert landið, en mun eitthvað slæðast suður yfir. En um miðja viku er hugsanlegt að áttir verði austlægari og að snjóa muni sunnanlands.

Talsvert frost

„Við erum að tala um talsvert frost. Á mánudaginn verður 2-10 stiga frost og 4-12 stig á þriðjudaginn, hvassviðri og stormur. Þetta virðist líka ætla að verða langdregið og mun ekkert skána almennilega fyrr en í lok vikunnar.“

Hvað tekur þá við? „Það er ekki útlit fyrir að snögghlýni í lok vikunnar, frostið mun þó eitthvað minnka, en lílega verður ennþá frost um mestallt land í lok vikunnar.“

Veðurvefur mbl.is

Hlýindatímabili undanfarinna vikna lýkur á morgun, en þá er spáð …
Hlýindatímabili undanfarinna vikna lýkur á morgun, en þá er spáð miklu frosti, stormi og hvassviðri. Kristinn Ingvarsson
Spákort fyrir mánudaginn 4. mars klukkan 18:00.
Spákort fyrir mánudaginn 4. mars klukkan 18:00. www.mbl.is/vedur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert