Nær að lýsa vantrausti á þingnefndina

Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag.
Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir furðulegt að Þór Saari skuli leggja fram vantrausttillögu á ríkisstjórnina vegna stjórnarskrármálsins. Það mál sé flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og nær væri fyrir Þór að lýsa vantrausti á hana.

Steingrímur sagði tillögu Þórs „furðulega“. Hann sagði að í upphaflegri tillögu Þórs hefði verið gert ráð fyrir að kosið yrði 13. apríl. Nú væri sú dagsetning horfin úr henni. Kosningar eiga fara fram 27. apríl og utankjörfundaratkvæðagreiðsla er hafin. Tillagan gerði hins vegar ráð fyrir að mynduð yrði ríkisstjórn allra flokka til að gegna störfum fram að kosningum. Hún gengi því út á að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og væntanlega Þór Sarri tækju strax sæti í ríkisstjórn.

„Hér er lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórnina. Vegna hvers? Vegna þess að frumvarp sem meirihluti þingnefndar flytur er ekki að fá þann framgang hér í gegnum þingið sem háttvirtur þingmaður, persónulega, telur að það eiga skilið.“ Steingrímur spurði hvers vegna ekki væri flutt vantraust á þingnefndina eða á Alþingi sjálft. “Hvers vegna á ríkisstjórnina, sem er ekki með þetta mál?“

Steingrímur sagði að Þór ætti, ef það væri tæknilega hægt, að leggja fram vantraust á Sjálfstæðisflokkinn því það væri hann sem væri að koma í veg fyrir að tillögur um breytingar á stjórnarskránni væru afgreiddar á þingi, eins og hann hefði gert 2007 og 2009. Steingrímur sagði að í grunninn snérist ágreiningur um breytingar á stjórnarskránni um 150-300 ára gömul átök í vestrænum stjórnmálum um einkaeignarréttinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert