Börnin fóru upp í fjöllin

Börn í Iwate í Japan.
Börn í Iwate í Japan. Herdís Sigurjónsdóttir

„Ljósið í myrkrinu var hversu mörg börn komust lífs af á þessum hamfarasvæðum,“ segir Herdís Sigurjónsdóttir, doktorsnemi í hamfarafræðum. Hún hefur tvisvar farið til Japan eftir að miklar hamfarir urðu þar fyrir tveimur árum þegar öflugur jarðskjálfti reið yfir landið og gríðarmikil flóðbylgja fylgdi í kjölfarið.

 Rúmlega 19 þúsund manns létu lífið og enn fleiri misstu heimili sitt. Herdís vinnur nú að rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin þar sem hún byggir meðal annars á reynslu Japana.

Afar fá börn létu lífið í hamförunum

Það vakti athygli Herdísar hversu fá börn létu lífið í hamförunum. Af rúmlega 21.000 skólabörnum í Iwata í Japan létu 36 börn lífið.

Herdís lék forvitni á að vita hvers vegna þetta hlutfall var svona lágt. “Börnin reyndist vera afar vel undirbúin og vissu nákvæmlega hvernig þau áttu að bregðast við,“ segir Herdís. Eldri börnin leiddu þau yngri og þannig fóru allir á sín svæði. „Síðan fóru allir upp í fjöllin,“ bætir Herdís við.

Þessi viðbrögð barnanna urðu þeim til lífs því fljótlega eftir jarðskjálftann reið flóðbylgjan yfir og fór þá margt undir vatn. „Þetta gekk ótrúlega vel vegna þess að þetta hafði verið æft vel,“ segir Herdís. Stór hluti þessara 36 barna sem létu lífið voru sótt af foreldrum sínum og drukknuðu á leið heim úr skólanum.

Eftir þetta var reglunum breytt og nú mega foreldrar ekki sækja börn sín þegar gefin hefur verið út flóðbylgjuviðvörun. „Lærdómur Japana er að skólinn eigi að sjá um börnin á skólatíma,“ segir Herdís.

Er búið að gleyma okkur?

Herdís segir aðdáunarvert hversu fljótt fólkið hefur náð að laga ytra umhverfi sitt en atriði líkt og samgöngur, vatn og rafmagn eru að mestu leyti komin í lag. „Aftur á móti er þjóðarsálin sjálf ekki á góðum stað,“ bætir Herdís við. „Fólkið þarna úti hefur áhyggjur af því að heimurinn sé búinn að gleyma því.“

Fleiri Japanar eru nú í bráðabirgðahúsnæði en öll íslenska þjóðin samanlögð. „Það er því mjög stór hópur sem er ekki heima hjá sér,“ segir Herdís. Lítið undirlendi er í Japan og því er erfiðara að byggja, ásamt því að skipulagsmálin eru flókin.

„Þeir lentu líka í vandræðum með ruslið,“ segir Herdís, en eftir hamfarirnar var gífurlega mikið af braki og rusli eftir og aðeins fá hús stóðu eftir. Að sögn Herdísar gilda flóknar reglur um sorpið en nú, tveimur árum síðar, er farið að rofa til í þessum málum.

Hamfaravitundin mikilvæg

Ekki er langt síðan mikill snjór og vindur varð til þess að margir íbúar höfuðborgarsvæðisins lentu í vandræðum og komust ekki leiðar sinnar. Margir sátu fastir í bílum, í strætisvögnum og jafnvel á vinnustöðum og þegar leið á morguninn var almenningur hvattur til að halda sig heima. Samhliða því  bárust misvísandi skilaboð til foreldra barna í skólum og leikskólum hvort sækja ætti börnin. Herdís segir að þarna hafi mátt gera betur og unnið séð að umbótum.

Herdís segir einnig að koma þurfi hamfaravitundinni inn í huga fólks hér á landi og Íslendingar megi læra af Japönunum, en þeir kenna börnunum snemma hvernig bregðast eigi við. Hún vill nýta það sem Japanar hafa lært eftir hamfarirnar og tengja það við aðstæður hér landi.

„Fólk þarf að spyrja sig hvað það getur sjálft gert,“ segir Herdís. Skyndihjálparnámskeið, námskeið í sálrænni skyndihjálp, endurskinsmerki og þekking á neyðaráætlun skóla barnanna og vinnustaðarins eru allt þættir sem þarf að huga að, segir Herdís.

Herdís Sigurjónsdóttir í Japan.
Herdís Sigurjónsdóttir í Japan. Herdís Sigurjónsdóttir
Flóðbylgjuforvarnarleikur í grunnskóla í Iwata.
Flóðbylgjuforvarnarleikur í grunnskóla í Iwata. Herdís Sigurjónsdóttir
Yfirgefin skólataska í brakinu eftir hamfarirnar í Japan 2011.
Yfirgefin skólataska í brakinu eftir hamfarirnar í Japan 2011. Herdís Sigurjónsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert