Hættur að láta eins og hálfviti

Jón Ármann er hér á toppi Keilis. Hann hefur stunda …
Jón Ármann er hér á toppi Keilis. Hann hefur stunda fjallamennsku í áratugi og einn af frumkvöðlum skipulagðra fjallgönguferða.

Hinn 85 ára gamli Jón Ármann Héðinsson lét sig ekki muna um það að ganga upp á fjallið Keili í dag. Jón er einn stofnenda ferðafélagsins Útivistar og hefur að eigin sögn stundað fjallgöngur í um 35 ár. Hann segir að nú sé kominn tími til að hætta að láta eins og hálfviti og gæta að sér. Því var þetta hans síðasta ferð.

„Þetta var síðasta ferðin. Maður má ekki láta eins og hálfviti fram í grafarbakkann. Svo verð ég að fara að gá að mér. Maður er búinn að láta eins og flón stóran hluta úr lífinu, að hlaupa upp á fjöll og styrkja sig,“ segir Jón snaggaralegur og kíminn. 

„Farðu og gerðu eitthvað af viti“

Hann segir að hugmyndin um að fara á fjallið hafi kviknað þegar hann var í sundi í morgun. „Ég var í sundi í Kópavogslauginni klukkan átta í morgun og hugsaði með sjálfum mér þegar ég horfði á Keili: Farðu þangað og gerðu eitthvað af viti og ég fór,“ segir Jón.

Að sögn Jóns gengur hann þrjá til fimm kílómetra á hverjum degi en hann á tvo mánuði í 86 ára afmælisdaginn. „Ég vil bara að fólk hreyfi sig, það er ástríða að hreyfa sig og liggja ekki í leti. Ég var frumkvöðull að því fyrir 43 árum að svokölluð trimmhreyfing var sett á fót á vegum ÍSÍ,“ segir Jón. 

Jón segir að hann hafi alla tíð verið mikill náttúruunnandi. „Lífið gefur manni svo margt yndislegt. Landið okkar er svo fallegt. Það er svo stórkostlegt að horfa á sköpunarverkið á toppnum. Þar hefur maður það fyrir framan andlitið á sér. Mér finnst sorglegt ef menn skynja ekki þessa fegurð. Þetta er ákveðin sálarleg og líkamleg fullnæging sem fylgir fjallamennsku, svo ekki sé minnst á félagsskapinn,“ segir Jón sem hvetur alla til að kynnast landinu á þennan hátt.

Jón hefur unnið að ýmsum íþróttamálum á ævi sinni. „Ég stofnaði HK, svo stofnaði ég Siglingasamband Íslands og fleira og fleira,“ segir Jón.

Erindreki sem berst gegn reykingum

Hann sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn á árunum 1967-1978 og þar vann hann meðal annars að lýðheilsumálum. „Mesta afrek mitt á Alþingi var það að ég var fyrsti maðurinn í heiminum sem kom í gegn frumvarpi gegn öllum áróðri fyrir reykingum. Það var erfitt og enginn sem vildi vera á frumvarpinu, en það komst í gegn með herkjum árið 1971,“ segir Jón.  

Jón var árið 2002 útnefndur sem erindreki fjallanna á Íslandi. „Þá var ár fjallanna. Ég veit ekki af hverju þeir klíndu þessu á mig. Það þýddi að ég þurfti að ganga á fjöll og láta áfram eins og hálfviti,“ segir Jón í gamansömum tón.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert