Falskar játningar mun algengari en talið var

Gísli H. Guðjónsson, prófessor í réttarsálfræði. Myndin af Gísla er …
Gísli H. Guðjónsson, prófessor í réttarsálfræði. Myndin af Gísla er tekin í gegnum stöplalagað stólbak heima hjá honum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Síðustu 30 ár hafa margar rannsóknir verið gerðar á fölskum játningum sem sýna að þær eru mun algengari en talið var. Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur er einn helsti sérfræðingur heims í fölskum játningum og var frumkvöðull í rannsókn slíkra mála, en hann sagðist í gær ekki hafa unnið jafnlengi að neinu máli eins og Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Á 8. áratugnum þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið stóð sem hæst var þekking á fölskum játningum engin og lítill skilningur á því að nokkur maður gæti nokkurn tíma játað á sig glæp sem hann hefði ekki framið.

Fræðin á bakvið falskar játningar má rekja til rannsókna Gísla Guðjónssonar í samstarfi við James MacKeith á Englandi á 9. áratugnum. Þeir greindu mjög nákvæmlega mál þar sem falskar játningar þóttu sannaðar og þróuðu mælitæki til að meta mismunandi sálfræðilega veikleika. Gísli er einn höfunda 19. kafla skýrslunnar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem kom út í gær.

Hundruð saklausra í fangelsum

Í kjölfarið hafa fleiri sálfræðingar rannsakað slík mál svo vísindagrunnurinn á bak við falskar játningar er nú orðinn töluverður og hefur haft áhrif á dómaframkvæmd á alþjóðavísu. Það er m.a. með hliðsjón af því sem starfshópurinn telur það koma til álita að lagt verði fram lagafrumvarp um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna.

Með tilkomu DNA rannsókna á 9. áratugnum varð auðveldara að sannreyna sakleysi þeirra sem sögðust hafa gefið falska játningu. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum hafa nú a.m.k. 302 dómar verið ógiltir vegna DNA prófa í Bandaríkjunum frá árinu 1989. 

Fjórðungur játaði glæpinn

Þetta fólk hafði setið í fangelsi í 13,6 ár að meðaltali áður en sakleysi þess sannaðist, samkvæmt vefsíðunni Innocence Project. 18 manns höfðu verið dæmdir til dauða í Bandaríkjunum áður en DNA próf sannaði sakleysi þeirra og varð til þess að þeim varð sleppt.

Í u.þ.b. 25% mála þar sem fólk hefur verið látið laust á grundvelli DNA í Bandaríkjunum höfðu sakborningarnir sagt eitthvað sem benti til sektar þeirra, játað á sig glæpinn eða lýst sig seka. Þessi mál eru líklega aðeins toppurinn á ísjakanum, samkvæmt því sem segir í skýrslunni um Guðmundar- og Geirfinnsmálið.

Ekki bara geðsjúkir sem játa á sig glæpi

Rannsóknir Gísla og James McKeith hafa sýnd fram á að falskar játningar skýrast af samspili nokkurra þátta, þ.á.m. þrýstingi lögreglu í viðtali, hræðslu við eða hótun um gæsluvarðhald og sálfræðilegum veikleikum.

Eitt það markverðasta sem Gísla og McKeith tókst að sýna fram á er þó að falskar játningar geta átt sér stað í alvarlegum brotum, eins og manndrápum eða kynferðisbrotum, án þess að geðsjúkdómi sé fyrir að fara hjá sakborningi en áður fyrr var lítil trú á því að slíkt ætti sér stað. 

Þessar rannsóknir hafa leitt til þess að dómstólar víða um heim taka í auknum mæli tillit til eðlis falskra játninga, auk þess sem lögreglan er farin að nálgast yfirheyrslur með vísindalegri hætti eftir að ljóst varð að það eitt að fá fram játningu skiptir ekki öllu máli, heldur einnig hvernig játningin var fengin fram.

Almennt er viðurkennt að falskar játningar séu af þrennum toga:

1) Sjálfviljugar falskar játningar; þ.e. án þrýstings frá lögreglu.

2) Falskar játningar þvingaðar af undanlátssemi; þ.e. sá sem gefur fölsku játninguna ræður ekki við þrýstinginn vegna t.d. yfirheyrslu og gæsluvarðhalds og reynir að sleppa frá honum með því að gefa falska játningu gegn betri vitund. Þetta virðist m.a. hafa átt við í tilfelli Kristjáns Viðars Viðarssonar.

3) Falskar játningar þvingaðar af sannfæringu; þ.e. vegna utanaðkomandi þrýstings þar sem sakborningi er talin trú um að hann hafi framið afbrot sem hann er saklaus af og man ekki eftir en samþykkir þó að hafa gert það.

Fleiri dæmi um falskar játningar á Íslandi

Nokkur fjöldi rannsókna á fölskum játningum, sem hafa haft áhrif á alþjóðlegum vettvangi, hafa verið framkvæmdar á Íslandi og eru raktar í skýrslu starfshópsins. Rannsóknirnar sýna m.a. að ungmenni og fangar á Íslandi greina oft frá því að hafa gefið falskar játningar.

Leiðir að fölskum játningum og röngum sakfellingum eru helst þrjár og í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum koma þær allar greinilega fram, samkvæmt skýrslunni. Þær eru eftirfarandi:

1) Fyrirfram skoðun á sekt sakbornings og oftrú rannsakenda á færni sína til að komast að sannleikanum.

2) Þvingun eða þrýstingur. Þegar sá sem liggur undir grun hefur verið ranglega álitinn sekur vill lögreglan gjarnan fá fram játningu og getur leitt hana fram með þrýstingi og leiðandi spurningum sem oft innihalda lúmskar hótanir eða hvatningu.

3) Spilliáhrif sem felast í því að þegar sakborningur hefur játað sök fara rannsakendur að aðstoða hann við að fylla upp í eyðurnar eða búa til sögu eða atburðarás í máli.

Líklegt að þau hafi hvergi komið nálægt málunum

Allt virðist þetta hafa komið við sögu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Allir sex sakborningarnir neituðu aðild þegar þeir voru yfirheyrðir í upphafi, en við frekari yfirheyrslur fóru þeir að játa. Í skýrslu starfshópsins segir að mjög áberandi sé hversu mikið ósamræmi var á milli framburða sakborninganna og hversu oft og mikið þau breyttu framburði sínum.

„Það er eins og rannsakendurnir hafi ekki litið á aðra möguleika en sekt sakborninganna. Mun líklegra er að ósamræmið hafi stafað af þekkingarleysi sakborninganna á málunum og að þeir hafi hvergi komið þar nálægt,“ segir í niðurstöðum 19. kafla skýrslunnar.

Enginn af sakborningunum sex reyndist geta gefið áreiðanlegar upplýsingar um þessa tvo menn sem taldir voru myrtir og enginn þeirra gat gefið upplýsingar um hvar hin meintu lík væru niðurkomin. Líkin hafa aldrei fundist. Niðurstaðan í málunum tveimur leiddi því ekki í ljós hvað gerðist, því enn er ekki vitað hvað raunverulega kom fyrir þá Guðmund og Geirfinn.

Forsíða Morgunblaðsins 3. febrúar 1977. Þrír menn játað að hafa …
Forsíða Morgunblaðsins 3. febrúar 1977. Þrír menn játað að hafa ráðið Geirfinni bana.
Gísli Guðjónsson á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og …
Gísli Guðjónsson á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert