Tveir brutu gegn Erlu í fangelsinu

Erla Bolladóttir í Sakadómi.
Erla Bolladóttir í Sakadómi.

Tveir menn, fangavörður og rannsóknarmaður, brutu kynferðislega gagnvart Erlu Bolladóttur þegar hún var í haldi í Síðumúlafangelsinu. Hún nafngreindi annan manninn við starfshópinn sem vann nýútkomna skýrslu um rannsóknina á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hópurinn kom þessum upplýsingum áleiðs til embættis ríkissaksóknara og Fangelsismálastofnunar. 

Ríkissaksóknari segir engar ráðstafanir hafa verið gerðar vegna þessa hingað til, engin kæra hafi verið lögð fram og málið sé fyrnt. Ekki kemur fram í skýrslunni hvorn manninn Erla nafngreindi eða hvort hann er enn starfandi sem rannsóknarmaður eða fangavörður.

Varð lömuð af skelfingu

Erlu segist svo frá í bók sinni, Erla, góða Erla, sem út kom árið 2008 að einn rannsóknarmannanna hafi haft við hana samræði í fangaklefa hennar í Síðumúlafangelsinu, hún hafi orðið skelfingu lostin og lamast af hræðslu.  „Af eðlishvöt vissi ég að ef eitthvað rangt gerðist þá yrði honum trúað en ég fundin sek. Lömuð af skelfingu þorði ég ekki annað en að  hlýða. Hann hafði líf mitt í hendi sinni og ég vissi ekki hvar það gæti endað ef honum mislíkaði við mig. Hann lagðist ofan á mig og ég fann hann fara inn í mig. Hann setti lófann yfir varir mínar til að varna því að í mér heyrðist á meðan hann athafnaði sig,“ segir í bókinni sem vitnað er í í skýrslu starfshópsins.

Þar segir ennfremur að annar maður, fangavörður í fangelsinu, hefði nokkrum sinnum káfað á Erlu að næturlagi, hún hafi kvartað undan þessu við fulltrúa yfirsakadómara og eftir það hefði þetta hætt.

Hefur ekki lagt fram kæru

„Hún hefur ekki lagt fram kæru og brotið er löngu fyrnt, hafi verið um það að ræða,“ segir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. „Það er að öllu jöfnu ekki verið að rannsaka fyrnd brot, þó verið sé að taka kæruskýrslur í kynferðisbrotamálum og þá gjarnan líka kallað á kærða. Það er gert í sumum tilvikum, en í þessu tilviki er engin kæra. En við höfum núna þessar upplýsingar.“

Sigríður segir að ekki hafi verið gripið til sérstakra ráðstafana vegna þessa og óvíst sé hvort svo verði. Hún segist ekki vita hvort umræddur maður starfi enn sem fangavörður eða rannsóknarmaður.

Frétt mbl.is: Undirgefin og föst í lygavef 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert