Vill skýr svör fyrir maí

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo segir að í apríl muni framtíð fyrirhugaðrar fjárfestingar hans á Íslandi skýrast. Hann segir að ef ekkert fari að þokast áfram í málinu muni hann hugsanlega hætta við fjárfestinguna eigi síðar en í maí.

Þetta kemur fram í umfjöllun um mál Huangs á vef China Daily.

Huang segir í samtali við blaðið að hugsanlega sé von á viðsnúningi málsins, honum í hag, í apríl.

„En ef ég fæ ekki skýr og endanleg svör frá íslenskum stjórnvöldum fyrir lok maí, mun ég ekki lengur hafa áhuga á verkefninu og sleppa af því takinu.“

Huang blæs á frétt New York Times þar sem ásetningur hans um uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi var dreginn í efa. Huang segir að um einföld viðskipti sé að ræða.

Huang er 57 ára og nýkominn heim til Kína frá New York þar sem hann var tekinn inn í Explorers Club, að sögn China Daily. Fáir Kínverjar hafa fengið þar inngöngu en meðlimir klúbbsins í gegnum tíðina hafa verið þekktir menn á borð við Neil Armstrong geimfara og kvikmyndaleikstjórann James Cameron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert