Jóhanna og Jónína í heimsókn til Kína

Forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir og eiginkona hennar, Jónína Leósdóttir, verða í opinberri heimsókn í Kína 15.-18. apríl.  Boði kínverskra stjórnvalda um heimsóknina var komið á framfæri af þáverandi forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, í opinberri heimsókn hans til Íslands í apríl á síðasta ári.  

Forsætisráðherra mun eiga fund með forsætisráðherra Kína, Li Keqiang og forseta Kína, Xi Jinping, en þeir tóku formlega við embættum í mars s.l. Ennfremur mun forsætisráðherra eiga fund með fyrrverandi forsætisráðherra, Wen Jiabao.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Í tengslum við heimsókn forsætisráðherra verður undirritaður fríverslunarsamningur á milli Íslands og Kína, en unnið hefur verið að honum um sex ára skeið og sammæltust forsætisráðherrar Íslands og Kína um það í apríl 2012 að setja aukinn kraft í að ljúka þeim viðræðum þannig að hægt væri að undirrita hann innan árs.
Samningurinn verður undirritaður af utanríkisráðherra, ásamt utanríkisviðskiptaráðherra Kína.  Jafnframt verður haldið viðskiptaþing í Peking þann 16. apríl með þátttöku fulltrúa íslenskra og kínverskra fyrirtækja og stofnana, þar sem tækifæri í tengslum við fríverslunarsamning ríkjanna verða rædd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert