2.282 bættust í hóp landsmanna

Árið 2012 fæddust 4.533 börn, 2.317 drengir og 2.216 stúlkur, …
Árið 2012 fæddust 4.533 börn, 2.317 drengir og 2.216 stúlkur, á Íslandi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íbúar landsins voru 321.857 talsins þann 1. janúar sl. Þeim fjölgaði um 0,7% frá sama tíma árið áður eða um 2.282 einstaklinga. Árið 2012 fæddust 4.533 börn, 2.317 drengir og 2.216 stúlkur, en 1.952 létust. Fæddir umfram dána voru því 2.581. Í fyrra fluttust 6.276 utan en 5.957 til landsins. Brottfluttir umfram aðflutta voru því 319 árið 2012.

Drengir sem fæddust í fyrra geta vænst þess að ná 80,8 ára meðalaldri en stúlkur eiga hins vegar von á að ná að meðaltali 83,9 ára aldri, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Hver kona eignast 2,037 börn á ævi sinni

Fæðingartölur á árinu 2012 jafngilda því að hver kona fæði 2,037 börn á ævi sinni. Jafnan er miðað við að þetta hlutfall þurfi að vera rúmlega 2 börn, þ.e. að minnsta kosti ein stúlka, til þess að þjóðinni fjölgi miðað við óbreytta dánartíðni og jafnvægi í flutningsjöfnuði.

Fæðingarárgangurinn 2012 er sá 24. stærsti frá árinu 1951. Árið 2012 létust 1.952 sem búsettir voru á Íslandi, 951 karl og 1.001 kona. Dánartíðni á hverja 1.000 íbúa var 6,1 dánir en hún hefur verið 6,1 til 6,5 prómill frá upphafi aldarinnar.

Í upphafi árs 2013 voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Auk þeirra voru 35 smærri byggðakjarnar me ð 50–199 íbúa. Alls bjuggu 301.464 í þéttbýli 1. janúar síðastliðinn og hafði þá fjölgað um 2.651 frá 1. janúar í fyrra. Í dreifbýli og smærri byggðakjö rnum bjuggu alls 20.393.

Reykjavík fjölmennust en Árneshreppur fámennastur

Fjölmennasta sveitarfélagið var Reykjavík með 119.764 íbúa. Það fámennasta var hins vegar Árneshreppur á Ströndum þar sem bjuggu 54. Árið 2012 fækkaði fólki í 32 sveitarfélögum og á sex landsvæðum af átta.

Innflytjendur voru 25.926 hinn 1. janúar síðastliðinn, 8,1% mannfjöldans. Fjöldi einstaklinga af annarri kynslóð innflytjenda var 3.204. Af innflytjendum voru Pólverjar langfjölmennastir, alls 9.371, 36,1% allra innflytjenda.

Í skýrslu Hagstofunnar kemur fram að undanfarinn áratug hefur búsetuþróun á Íslandi verið með nokkuð sérstæðum hætti. Mikill vöxtur hljóp í íbúafjöldann árin 2005–2007 þegar árleg fjölgun fór yfir 2%.

Búferlaflutningar hafa áhrif

Íbúatala landsins náði hámarki 1. janúar 2009 þegar hér voru skráðir 319.368 einstaklingar með lögheimili á Íslandi. Hins vegar fækkaði landsmönnum um 1.738 árið 2009. Síðast fækkaði landsmönnum árið 1888, þá um 579 einstaklinga. Eftir fækkunina 2009 hefur fjölgunin verið upp á við og árið 2012 nam hún 2.282.

„Sveiflur í mannfjöldatölum skýrast fyrst og fremst af tölum um búferlaflutninga til og frá landinu. Á árinu 2012 fluttust 319 brott af landinu umfram aðflutta. Aðfluttir voru 5.957 en brottfluttir 6.276.

Aðfluttum fjölgaði um 379 frá árinu 2011 og brottfluttum fækkaði um 706. Flutningsjöfnuðurinn var því mun hagstæðari árið 2012 en árið áður þegar 1.404 fluttust brott umfram aðflutta,“ segir í skýrslu Hagstofunnar.

Mun fleiri karlar fluttir frá landinu

Allnokkur munur var á milli kynja í millila ndaflutningum. Árið 2012 fluttust 300 fleiri karlar úr landi en til landsins og 19 fleiri konur fluttust frá landinu en til þess. Fram til ársins 2003 fluttust að jafnaði fleiri konur til landsins en karlar. Þessi þróun snerist við á tímabilinu 2004–2008. Á þeim árum fluttust til landsins 4.215 fleiri karlar en konur.

Á undanförnum fjórum árum hafa hins vegar 4.114 fleiri karlar en konur flust úr landi umfram aðflutta. Hlutfall kynjanna í mannfjöldanum hefur því jafnast á nýjan leik.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert