Hleruðu mann úti á landi að ósekju

Ólafur Ólafsson ræðir við fjölmiðla í morgun.
Ólafur Ólafsson ræðir við fjölmiðla í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Í ljós kom að á þriðja hundrað símtala voru símtöl manns sem tengdist þessu máli á engan hátt og hann er ekki nafni minn; hvorki Ólafur né Ólafsson. Við urðum enda rasandi að „hæfasta teymi landsins“ skuli hlera vitlausan síma,“ segir Ólafur Ólafsson um vinnubrögð embættis sérstaks saksóknara.

Ólafur er ákærður í Al-Thani-málinu ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni. Eftir þinghald í morgun upplýsti hann um það að þegar sérstakur saksóknari hefði ætlað sér að hlera síma sína hafi hann hlerað einhverja menn úti í bæ. 

„Ég fékk upplýsingar um það einu og hálfu ári eftir hleranir sérstaks saksóknara að tveir símar frá mér hefðu verið hleraðir; erlendur farsími og heimasími minn í Sviss. Ég neytti réttar míns til að heyra þessi símtöl síðast þegar ég kom til landsins og fékk til þess aðstöðu hjá sérstökum saksóknara. Þá sé ég að 554 símtöl voru hleruð og kom fjöldi þeirra mér verulega á óvart,“ segir Ólafur.

Hann segist hafa farið í gegnum símtölin í farsímanum og hafi þau verið tiltölulega fá, aðallega samtöl við Gest Jónsson, fyrrverandi verjanda Sigurðar Einarssonar. „Svo þegar ég fer að hlusta á símtölin úr heimasímanum þá heyri ég menn tala um að skutlast eftir öðrum upp á Bústaðaveg og svo persónuleg samtöl sem ég kannaðist ekkert við og gátu ekki hafa farið í gegnum heimasíma minn í Sviss.“

Ólafur segir að í ljós hafi komið að á þriðja hundrað símtöl voru símtöl manns sem tengdist málinu ekki á nokkurn hátt. Hann segist gáttaður á því að starfsmenn sérstaks saksóknara hafi ekki orðið það ljóst að um allt annan einstakling var að ræða sem búi við allt aðrar aðstæður, en maðurinn býr úti á landi. Hann telur að starfsmenn sérstaks saksóknara hafi ekki í raun ekki vitað af því að rangur maður hafi verið hleraður fyrr en í dag. „Enda höfum við ekki litið á það sem okkar hlutverk að upplýsa sérstakan saksóknara um slíkt.“

Lögmenn sem hlustuðu á símtölin höfðu upp á manninum, þar sem hann týndi greiðslukorti og gaf í kjölfarið upp nafn, kennitölu og heimilisfang. „Hann var mjög sjokkeraður að heyra þetta og mun leita réttar síns.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert