Samkomulagi landað um veiðarnar

Samkomulag liggur fyrir á milli þjóðgarðsins á Þingvöllum og stangveiðimanna um veiðar í Þingvallavatni að næturlagi en Þingvallanefnd samþykkti nýverið að banna stangveiðar í landi þjóðgarðsins frá klukkan hálftólf á kvöldin til fimm á morgnana meðal annars vegna slæmrar umgengni og notkunar á óleyfilegri beitu eins og makríl og hrognum sem virtist helst eiga sér stað á nóttunni.

Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, hefur að undanförnu fundað meðal annars með fulltrúum Stangaveiðifélags Reykjavíkur, Landssambandi stangaveiðifélaga og Veiðikortsins og stóðu fundir yfir í allan gærdag. Samkomulag liggur nú fyrir að hans sögn sem verður lagt fyrir Þingvallanefnd sem hefur lokaorð í málinu.

„Samkomulagið felst í auknu veiðieftirliti á nóttunni af okkar hálfu og sömuleiðis að veiðimenn komi einnig til liðs við veiðieftirlitið samkvæmt nánara fyrirkomulagi og Veiðikortið er tilbúið að leggja fram umbun til þeirra sem sinna því með nokkrum veiðikortum. Síðan á að efla upplýsingar, fræðslu og hvatningu til góðra veiða. Þannig að í mínum huga er komin full sátt og niðurstaða gagnvart veiðimönnunum en síðan er lokaorðið hjá Þingvallanefnd,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert