Þrjú einstaklingsframboð ógild

Kosningamynd kosningar kjörkassi
Kosningamynd kosningar kjörkassi mbl.is/Brynjar Gauti

Yfirkjörstjórn í Reykjavíkurkjördæmi suður úrskurðaði í hádeginu í dag að öll framboð sem skiluðu meðmælendalista til yfirkjörstjórnar uppfylltu lagaskilyrði til að bjóða fram í alþingiskosningunum þann 27. apríl næstkomandi. Þrjú einstaklingsframboð, þar sem einn einstaklingur var í framboði og engum meðmælum skilað, voru úrskurðuð ógild.

„Þessir þrír einstaklingar byggðu framboð sitt á tilteknum stjórnarskrárákvæðum. Við komumst að þeirri niðurstöðu að stjórnarskráin lýsir þessu með ákveðnum hætti, en hún vísar líka í tiltekin lög um framkvæmd alþingiskosninga,“ Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Við sjáum ekki að þessir einstaklingar hafi uppfyllt þær kröfur sem lögin gera. Þetta eru ekki stjórnmálasamtök með ákveðnum fjölda frambjóðenda, að það sé listabókstafur sem ráðuneytið veitir og það vantaði alla meðmælendur. Þessir einstaklingar skiluðu bara inn einu nafni og einni undirskrift,“ segir Sveinn.

Sveinn sagði að þeir framboðslistar sem yfirkjörstjórn gerði athugasemdir við að hefðu ekki skilað nægilega mörgum undirskriftum bættu úr því fyrir hádegi í dag. 14 framboðslistar verða því í kjöri í Reykjavíkurkjördæmi suður í komandi alþingiskosningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert