Prestastefna sett í dag

Djáknar, prestar og biskupar ganga til kirkju við upphaf prestastefnu.
Djáknar, prestar og biskupar ganga til kirkju við upphaf prestastefnu. Ljósmynd/Biskupsstofa

Prestastefna var sett í Háteigskirkju í dag. Í ræðu sinni við setningu stefnunnar ræddi Agnes M. Sigurðardóttir um hlutverk kirkjunnar í samfélaginu, Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og baráttuna gegn fátækt og misskiptingu í heiminum.

Hún sagði einnig að kirkjan ætti að vera til fyrirmyndar í vinnubrögðum og verklagi og sýna það í orði og verki að hún fetaði í fótspor Jesú Krists.

Meginefni prestastefnu er að þessu sinni umfjöllun um prestsembættið og hlutverk prestsins í sögu og framtíð. Biskup sagði í ræðu sinni að nútíminn gerði miklar kröfur til fagmennsku og að samvinna stétta hefði aukist.

„Einnig hefur samstarf aukist á milli sókna, þar sem þær mynda samstarfssvæði. Samstarfssvæðin eru nú 31 á landinu og voru hugsuð til að jafna þjónustubyrði og tryggja betur þjónustuna við fólkið í landinu.“

Hún bætti við að kirkjan hefði „ekki aðeins áhrif á líf einstaklinga heldur á samfélagið allt, hugsunarhátt og framkvæmdir allar og lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Á þeim forsendum hefur kirkjan boðist til að leiða söfnun fyrir tækjakaupum á Landspítalanum því traust og góð heilbrigðisþjónusta varðar okkur öll og velferð okkar. Nú stendur yfir undirbúningur þeirrar söfnunar og opnaður hefur verið reikningur sem félagasamtök og einstaklingar hafa þegar lagt inn á“.

Nánari útfærsla þeirrar söfnunar verður kynnt á prestastefnunni. Ræðu biskups má nálgast í heild á vef Þjóðkirkjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert