Skíðar ekki meira á þessari vertíð

Fjallaleiðsögumaðurinn hjá Artic Heli Skiing mun líkast til ekki skíða …
Fjallaleiðsögumaðurinn hjá Artic Heli Skiing mun líkast til ekki skíða meira á þessari vertíð. Hann er með slitin liðbönd í hné. Mynd úr safni.

„Hann hefur það nokkuð gott. Hann er með slitin liðbönd í hné, skrámaður og svolítið lemstraður líka,“ segir Jökull Bergmann, sem rekur fyrirtækið Artic Hele Skiing sem annast þyrluskíðaferðir hér á landi og á Grænlandi, um ástand fjallaleiðsögumanns frá fyrirtækinu sem lenti í snjóflóðinu við Sauðanes norðan Dalvíkur í gærkvöldi og liggur nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Hann var þar með fjögurra manna hóp bandarískra skíðamanna þegar flóðið féll á hann. Að sögn Jökuls grófst fararstjórinn ekki í flóðið og vel gekk að ná honum úr því.

-Varstu á þyrlunni þarna rétt hjá?

„Nei ég var á annarri þyrlu í nágrenninu. Hann var sjálfur með sína þyrlu að vinna á þessu svæði.“

Kominn á spítalana 23 mínútum síðar

-En hann hefur ekki legið lengi í flóðinu?

„Nei það má segja að þetta hafi gengið eftir áætlun. Við erum með mjög ákveðna verkferla sem við förum eftir sem eru í samráði og samvinnu við FSA [Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri] og 112. Um leið og eitthvað svona gerist þá fara þeir verkferlar í gang og frá því að flóðið fellur og þangað til hann er kominn inn á borð á slysadeildinni á Akureyri liðu akkúrat 23 mínútur. Það má eiginlega segja að þetta hafi verið staðfesting á því að það sem við erum að æfa fyrir alltaf er að virka og mjög ánægjulegt að allt gekk mjög vel fyrir sig. Samskipti við 112, sjúkrahúsið og flugturninn gekk allt eins og í sögu.“

-Hvernig var með ferðamennina sem voru með honum?

„Þeir voru að bíða eftir að hann kannaði aðstæður í brekkunni. Þeir voru á öruggum stað og fundu ekkert fyrir flóðinu nema að horfa upp á það. Leiðsögumaðurinn flóðatékkaði staðinn sem hann skíðaði á. Brekkan sem hann var að skíða í er í raun og veru ekki snjóflóðabrekkan. Það sem að gerist er að það fer af stað snjóflóð töluvert langt fyrir ofan hann. Líklega þrjú til fjögur hundruð metrum og til hliðar. Það var hreinlega bara nógu stórt flóð til þess að það fór inn í þá leið sem hann var að skíða og greip hann með.“

Fráleitt að þyrla hafi komið flóðinu af stað

-Hvað heldur þú að hafi komið því af stað?

„Það hefur klárlega ekki verið þyrlan. Það er mikil mýta að þyrlur valdi snjóflóðum eða hávaði almennt. Það er hinsvegar í raun og veru mjög erfitt að segja til um það hvort það hafi verið hreinlega svona veikt lag í snjónum alveg þarna niður sem tengdi upp þar sem hann fór á stað. Sem að þá leiðsögumaðurinn hefur sett af stað. Eða hvort hreinlega hafi farið af stað náttúrulegt flóð þarna efst í brekkunni. Það er í raun og veru ekki hægt að segja til um það alveg 100%. Það eru búin að vera að falla náttúruleg snjóflóð á svæðinu undanfarna daga. Það er mjög erfitt að segja til um það nákvæmlega.“

 -En er eitthvað sem þú telur að þurfi að endurskoða í ykkar ferlum eða eru þeir að virka eins og skyldi?

„Það má segja sem svo að allir björgunarferlar hafi virkað eins og skyldi og þurfi ekki mikillar endurskoðunar við. En við lærum af öllum atvikum, sama hvort þau eru slæm eða góð og förum yfir alla verkferla og sjáum hvort það sé eitthvað sem að við getum gert til að bæta þá.“

-Það hefur gengið vel að koma ferðafólkinu af staðnum?

„Já þeir voru komnir upp í bíl þarna fyrir neðan örskömmu seinna og komnir af stað heim í okkar bækistöð þar sem þeir fóru í kvöldmat.“

„Eiga við snjóflóð alla daga“

-Þeir hafa ekki fengið sjokk?

„Nei það var allt í góðu lagi með það. Snjóflóð eru eitthvað sem við sjáum mikið af okkar starfi og á ferðalögum á fjöllum að vetrarlagi. Fyrir almenning hljómar þetta eins og einhver hryllingur en þetta er nú bara staðreynd sem að fylgir því að snjór sest í fjalllendi - að það verða snjóflóð. Það má eiginlega segja að það er á hverjum tímapunkti yfir veturinn nánast alltaf viðvarandi snjóflóðahætta einhversstaðar á fjöllum. Snjóflóð eru partur af því sem að við þurfum að eiga við alla daga.“

-Er mikið að gera hjá ykkur á þessum tíma?

„Já þetta er okkar vertíð. Það er að segja mars og fram í júní. Við erum að skíða hérna á Tröllaskaga alveg fram í síðustu vikuna í júní.“

-Nú ert þú einn reyndasti fjallaleiðsögumaður landsins. Það hefur væntanlega nýst vel í þessu tilviki?

„Já ég er eini alþjóðlega faglærði fjallaleiðsögumaður landsins. En það má alveg minnast á að leiðsögumaðurinn sem lenti í snjóflóðinu er reynslumesti þyrluskíðaleiðsögumaður landsins og hann starfar við þetta allan veturinn í Kanada áður en hann kemur hingað til Íslands að vinna.“

-Hvenær er talið að hann geti farið aftur á skíði - það verður varla í vetur?

„Nei ég held að það sé nokkuð ljóst að það verður ekki í vor. En hann á að ná sér alveg á fullu og verður kominn á skíðin fyrir næstu vertíð alveg klárlega.“

-Hvernig leysið þið það nú?

„Við þurfum að kalla inn leiðsögumenn utan frá og erum að græja það.“

Frétt mbl: Minna slasaður en talið var

Frétt mbl:Skíðamaður lenti í snjóflóðinu

Frétt mbl: Snjóflóð féll norðan Dalvíkur

Jökull Bergmann, fjallaleiðsögumaður hjá Artic Heli Skiing.
Jökull Bergmann, fjallaleiðsögumaður hjá Artic Heli Skiing. mbl.is
Artic Heli Skiing er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þyrluskíðaferðamennsku …
Artic Heli Skiing er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þyrluskíðaferðamennsku á Tröllaskaga og á Grænlandi. Ljósmynd/Snorri G. Steingrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert