Ný slökkvistöð í Mosfellsbæ strand

Engin slökkvistöð rís í Mosfelslbæ að svo komnu máli.
Engin slökkvistöð rís í Mosfelslbæ að svo komnu máli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má segja að velferðar- og fjármálaráðuneytin hafi staðið sig með afbrigðum illa í málinu. Á meðan þá tapar slökkviliðið stórfé og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu blæða vegna þess að það er ekki búið að ganga frá þessum samningi,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og stjórnarmaður í byggðasamlagi um slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundi stjórnar í dag var ákveðið að fresta ákvörðun um smíði nýrrar starfsstöðvar í Mosfellsbæ sökum þess að samkomulag sem gert hafði verið við velferðarráðuneytið um sjúkraflutninga er strand í fjármálaráðuneytinu og því hefur ekki tekist að ljúka málinu.

Þar bókaði stjórnin: „Stjórn SHS harmar að ekki sé búið að ganga frá formlegum samningi um þetta mikilvæga öryggismál á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir samkomulag þar um, sem fulltrúar SHS og VEL skrifuðu undir, eftir mikla undirbúnings- og samningavinnu. Að mati stjórnarinnar er það óásættanlegt þegar fagráðuneyti gengur frá samkomulagi, í þessu tilfelli velferðaráðuneytið, að álið skuli ekki vera afgreitt hjá fjármálaráðuneytinu.“

Gunnar er ósáttur við að ekki sé hægt að treysta samkomulagi sem gert er við fagráðuneyti og segir eitthvað alvarlegt að í stjórnsýslu ríkisins.

„Ríkið skuldar byggðasamlaginu, slökkviliðinu, stórfé vegna uppgjörs ársins 2012 og svo greiðslur vegna ársins 2013. Samningurinn rann út fyrir rúmlega ári síðan,“ segir Gunnar.

Hann sat í samninganefnd við velferðarráðuneytið um sjúkraflutningana og þar var gert samkomulag fyrir nokkrum mánuðum um málið.

Á að hýsa bæði sjúkra- og slökkvibíla

„Það samkomulag er núna strand einhversstaðar í fjármálaráðuneytinu og er þess valdandi að ekki er hægt að ganga til samninga um nýja slökkvistöð í Mosfellsbænum. Við erum búin að bjóða hana út vegna þess að þar á að vera pláss fyrir sjúkrabíla líka,“ segir Gunnar.

„Ef ég væri forsætisráðherra myndi ég byrja á að gera allsherjarúttekt á þessum hlutum með það að markmiði að auka skilvirkni ráðuneytanna, brjóta múra, efla þjónustulund og áreiðanleika og almennt hreinsa til í kerfinu þannig að það liti betur út og lyktaði betur. Það getur ekki verið eðlilegt að svona samkomulag sé gert við eitt fagráðuneyti og svo strandar það einhversstaðar í fjármálaráðuneytinu og enginn veit neitt,“ segir Gunnar.

Samskipti við ríkið taka á taugarnar

„Menn semja ekkert um sjúkraflutningana nema hafa eitthvað bakland. Svo er bara einhver uppi í fjármálaráðuneyti sem segir: „Þetta er allt saman bull.“ Við erum búin að eyða þremur mánuðum, dýrmætum tíma, í að reyna að semja. Þetta kerfi minnir margt á það sem gerist í vanþróuðum ríkjum. Þetta er ekkert eðlilegt,“ segir hann.

„Ég er búinn að vera bæjarstjóri í átta ár. Það eru mjög mörg mál sem fara í svona farveg. Ég held að ég geti sagt að á mínum ferli sé kannski aðeins eitt mál í samskiptum við ríkið þar sem ríkið fékk ekki falleinkunn og það er í sameiningarmálum við Álftanes sem innanríkisráðuneytið stóð sig mjög vel í. En önnur mál - þar tekur á taugarnar að eiga í samskiptum við ríkið,“ segir Gunnar.

Fundargerð stjórnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert