Ráðist á móður á Klambratúni

Klambratún er útivistarsvæði sem margir njóta.
Klambratún er útivistarsvæði sem margir njóta. Styrmir Kári

Ráðist var á konu á Klambratúni þar sem hún var með tveimur börnum sínum. Hundaeigandi brást ókvæða við þegar konan bað hann um að setja hundana sína í ól og veittist harkalega að henni. Við það fékk hún áverka á vanga. Atvik þetta hefur vakið nokkurn ótta hjá henni og börnum hennar og vill hún koma fram með sögu sína til að varpa ljósi á samfélagið.

Konan var á ferð með tveimur börnum sínum sem eru fjögurra og sex ára þegar atvikið átti sér stað. „Ég sé að það er par með tvo lausa hunda, þegar ég geng framhjá konunni bendi ég  henni kurteisilega á að hundarnir eiga að vera í ól. Í framhaldinu ætlaði ég að útskýra fyrir henni að börnin væru hrædd við hunda. Þá stendur maðurinn nærri og byrjar strax að ausa yfir mig fúkyrðum,“ segir konan.

Merst á vanga

„Þegar maðurinn jós yfir mig fúkyrðum bað ég hann vinsamlegast um að hætta þessum dónaskap en hann hélt áfram. Svo kemur hann ógnandi að mér. Ég bakka frá og ætla að taka upp símann enda orðin hrædd. Þá tekur hann harkalega í hálsmálið á mér og við það fer hann í vangann sem leiðir til þess að ég merst. Hann heldur svo fast í hálsmálið og ógnar mér með hinni hendinni eins og hann ætli að kýla mig. Þá reynir konan hans að stöðva hann en hann ýtir henni frá. Í því hrópa ég á hjálp og konan nær að draga hann frá. Svo gengu þau í burtu smá spöl en hann snýr sér við og horfir á okkur ógnandi á meðan ég er í símanum,“ segir konan.

Engin hjálparhönd

Hún segir að þegar þetta atvik átti sér stað hafi hún bara séð atburðarásina og börnin sín tvö og varð ekki vör við hvort eitthvert fólk væri nærri. Yngra barnið stóð álengdar stjarft af hræðslu og það eldra stóð fyrir aftan hana. Eftir atvikið trylltist eldra barnið úr hræðslu og það yngra fór að gráta. Sjálf var ég skjálfandi af hræðslu og átti erfitt með að halda aftur af tárunum. Í því tek ég eftir fólki í garðinum, mér þykir leitt, þar sem við vorum skelfingu lostin að þeir sem áttu leið framhjá okkur veittu okkur enga athygli,“ segir konan.

Stuttu síðar kom lögreglan á svæðið en þá var parið á brott. Hún segir viðbrögð lögreglu góð. „En þar sem ég veit ekki hver viðkomandi er fellur mál þetta því miður sennilega um sjálft sig,“ segir konan.

 „Ég hef farið yfir atvikið í huga mínum aftur og aftur. Auðvitað hefði ég átt að ganga í burtu þegar hann byrjaði að ausa yfir mig fúkyrðum. En maður á ekki von á svona viðbrögðum, maður er í aðstæðum sem maður telur sig ráða við og að viðkomandi sjái að sér. En það gerði hann ekki og hafði uppi orð, sem ég get ekki haft eftir, sem beindust bæði að mér og börnum mínum,“ segir konan

Vill varpa ljósi á samfélagið

Hún segir að hún hafi verið efins um það hvort hún ætti að koma fram með þessa frásögn. „En maður vill varpa ljósi á það samfélag sem maður býr í. Klambratún er ein af náttúruperlum Reykjavíkur og útivistarsvæði sem samborgararnir njóta og manni finnst að maður eiga að vera óhultur en því miður vorum við á röngum stað á röngum tíma,“ segir konan.

Lausaganga hunda er bönnuð á Klambratúni.

parið var á brott þegar lögreglan kom á svæðið.
parið var á brott þegar lögreglan kom á svæðið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert