24,6 milljarðar í tekjur af þjónustugjöldum árið 2012

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þrír stærstu viðskiptabankar Íslands fengu tæpa 24,6 milljarða kr. í hreinar tekjur af þóknana- og þjónustugjöldum á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningum bankanna fyrir árið 2012 sem kynntir voru í mars.

Þar af voru hreinar tekjur Arion banka tæplega 10,7 milljarðar kr., tæpir 9,5 milljarðar kr. hjá Íslandsbanka og rúmir 4,4 milljarðar hjá Landsbanka.

10 milljarða kr. tekjur af þjónustugjöldum greiðslukorta

Bankarnir innheimta um 200 þóknana- og þjónustugjöld fyrir veitta bankaþjónustu. Tekjur vegna greiðslukortaviðskipta vega þar þyngst. Til að mynda er tekið færslugjald fyrir hverja greiðslu auk þess sem viðskiptavinir greiða fast árgjald fyrir debet og kreditkort.

Þannig voru hreinar tekjur Arion banka af greiðslukortaviðskiptum tæplega 5 milljarðar króna, um 3,5 milljarðar kr. milljarðar hjá Íslandsbanka en um 1,5 milljarður króna hjá Landsbanka. Hreinar tekjur að þjónustugjöldum vegna greiðslukorta voru því um 10 milljarðar króna. 

Þess ber að geta að Arion banki á 60,78% hlut í dótturfélaginu Valitor en Landsbankinn  á 38%. Þá er eignarhlutur Íslandsbanka í dótturfélaginu Borgun 62,2% og Landsbankans 31,21%. Ólíkt hinum bönkunum tekur Landsbankinn ekki þjónustutekjur frá Valitor og Borgun inn í samstæðureikning í ársuppgjöri sínu þar sem þessi félög eru ekki dótturfélög bankans. Væru þau það má áætla að þjónustutekjur myndu hækka umtalsvert í ársreikningi.

Þess ber að geta að Borgun og Valitor fá hluta tekna sinna fyrir veitta þjónustu á fyrirtækjamarkaði.

Alltaf greitt fyrir úttekt af tékkareikningi

Nýjustu þjónustugjöld bankanna eru hraðbankagjöld en þau voru kynnt sumarið 2012. Þarf nú að greiða gjald fyrir úttekt á reiðufé sé notast við annað greiðslukort en það sem gefið er út af viðkomandi banka. Peningaúttekt úr hraðbanka hjá sama banka og gefur út debetkort er hins vegar gjaldfrjáls.

Greiða þarf að lágmarki 400 til 695 kr. árgjald fyrir debetkort. Greitt er fyrir hverja úttekt hjá gjaldkera. Því er ómögulegt að taka út fé af tékkareikningi án þess að greiða fyrir það á einn eða annan máta.

Ekki er tekið gjald fyrir úttekt af bankabók.

Íslandsbanki við Kirkjusand.
Íslandsbanki við Kirkjusand. mbl.is/Ómar Óskarsson
Höfuðstöðvar Arion banka.
Höfuðstöðvar Arion banka. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert