Ekki nauðsyn á meiri skattahækkunum

Katrín Jakobsdóttir, Smári McCarthy og Þorbjörn Þórðarson sem stjórnaði fundinum.
Katrín Jakobsdóttir, Smári McCarthy og Þorbjörn Þórðarson sem stjórnaði fundinum.

Það er ekki nauðsyn að fara í frekari skattahækkanir á næsta kjörtímabili að mati Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Þetta kom fram á fundi VÍB eignastýringarþjónustu Íslandsbanka í dag. Sagði Katrín að jafnvel mætti horfa til skattalækkana á millitekjuhópa ef skilyrði sköpuðust fyrir lækkunum.

Ósammála um ástæðu jafnaðar

Hún sagði að breytingar sem gerðar hefðu verið á kjörtímabilinu hefðu leitt til meiri jafnaðar, en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var því ósammála og sagði að ójöfnuðurinn hefði aðeins minnkað vegna launahruns þegar bólan sprakk hér á landi. Það hefði ekkert með skattastefnu að gera.

Sagði Katrín stöðugleika nauðsynlegan og að ríkisstjórnin hefði náð niður vöxtum, verðbólgu og atvinnuleysi á þessu kjörtímabili. Hún tók undir að fjárfestingar væru í lágmarki, en tók fram að það væri eðlilegt í ljósi hrunsins. Nú hefði ríkisstjórnin aftur á móti blásið til sóknar og sett af stað fjárfestingaáætlun þar sem mikið væri fjárfest í rannsóknum og nýsköpun. Sagði hún að slíkt væri samnefnari hjá ríkjum sem væri að ganga best í dag.

Ekki einfaldara heldur gegnsærra

Smári McCarthy, kapteinn Pírata í suðurkjördæmi, sagði núverandi skattkerfi vera sanngjarnara en áður. „Það vantar ekki að einfalda það heldur gera það gegnsærra svo fólk viti af hverju það greiðir ákveðna skatta og í hvað þeir fara,“ sagði hann. Nefndi Smári að pólitísk óvissa væri verri en markaðsleg óvissa og að það skipti meira máli að vera ekki á fleygiferð fram og til baka í stórum málum eins og orku- og auðlindamálum eða fara fram og til baka í frjálslyndi og íhaldssemi. Taldi hann breytingar á sköttum ekki hafa jafn mikil áhrif.

Heiða Kristín Helgadóttir, frambjóðandi Bjartrar framtíðar gagnrýndi vörugjaldafrumskóginn sem hún sagði að væri litlum og meðalstórum fyrirtækjum fjötur um fót. Sagði hún að þessi fyrirtæki þyrftu oft að ráða sérfræðinga til að ráða sig gegnum regluverkið og því væri nauðsynlegt að auðvelda þeim að fóta sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert