Eðlilegt og rökrétt framhald

Hefðbundin kröfuganga í Reykjavík á 1. maí.
Hefðbundin kröfuganga í Reykjavík á 1. maí. mbl.is

„Ég tel að þetta sé byrjunin á mun öflugra samtali og ef umhverfishreyfingin tekur yfir 1. maí og verkalýðshreyfingin á ekki erindi lengur þá er það bara fínt,“ segir Andri Snær Magnason um gagnrýni verkalýðsforingja á Grænu gönguna svonefndu sem farin verður í kjölfar kröfugöngu verkalýðsfélaganna.

Í Fréttablaðinu í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, meðal annars að umhverfissinnar ættu að leyfa verkalýðsfélögunum að eiga 1. maí fyrir málefni launafólks. Stefán Jónsson, formaður SFR, sagði ennfremur: „Það fer verulega í taugarnar á mér þegar aðrir eru að reyna að troða sér inn á þann dag.

Andri Snær segist fagna því að þetta viðhorf komi fram. „Ég var sjálfur fenginn til að ávarpa þing norrænna verkalýðsfélaga í Álasundi í fyrra og þar voru margar mjög róttækar hugmyndir sem komu fram. Meðal annars um að verkalýðshreyfing án tengsla við grasrót umhverfishreyfingarinnar væri dautt dæmi.“

Hann segir eðlilegt og rökrétt framhald af samstöðu verkafólks í heiminum og síðan hvernig kvenréttindin sameinuðust þeirri baráttu, að verkalýðshreyfingin spyrji sig alvarlegra spurninga um umhverfismál í heiminum. „Meðal annars hvort starfið sem slíkt sé alheilagt og eitthvað sem ekki má setja spurningamerki við eða hvort skaðleg störf og illkynja hagvöxtur sé eitthvað sem verkalýðshreyfingin eigi að styðja.“

Um tvö þúsund skráðir til leiks

Samtök um náttúru- og umhverfisvernd standa að göngunni og verður hist á Snorrabraut við Hlemm klukkan 13 en gangan hefst hálftíma síðar. Gangan verður farin niður Laugaveg í kjölfar kröfugöngu verkalýðsfélaganna og í lokin verður grænum fánum stungið niður á Austurvelli við Alþingi. Göngumenn eru þá hvattir til að klæðast grænu.

Andri Snær segir að þetta sé áhugaverður samsláttur og í raun ættu göngumenn ekki að skilja fána sína eftir á Austurvelli heldur taka þá með inn á Ingólfstorg. „Verkalýðshreyfingin er mjög oft á vafasömum stað í grænu málunum. Til dæmis þegar hún krafðist þess að álver í Helguvík færi inn í stöðugleikasáttamálann og að öllum hindrunum skyldi rutt úr vegi. Ég held að þar hafi mörgum fundist verkalýðshreyfingin komin á bandvitlausan stað, bæði umhverfislega og félagslega.“

Til skýringar segir Andri Snær að Glencore, sem stendur að álverinu í Helguvík sé eitt illskeyttasta batterí í veröldinni. „Og þar með voru þeir að styðja öfl í heiminum sem hafa verið að grafa undan samfélögum úti um allt.“

Um tvö þúsund manns hafa skráð komu sína í gönguna á samskiptavefnum Facebook. Hér má finna vefsvæði Grænu göngunnar þar. 

Andri Snær Magnason.
Andri Snær Magnason. Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert