Fyrir sjónir mörg hundruð milljóna

Hin 11 ára gamla Chloe Lang er önnur leikkonan sem bregður sér í hlutverk Sollu stirðu í þáttunum um Latabæ. Hún tók við keflinu af Julianna Rose Maurielo sem var vaxin upp úr hlutverkinu enda nær 23 ára gömul í dag.

Þegar Turner fjölmiðlasamsteypan keypti Latabæ fyrir tæpum tveimur árum var ákveðið að hefja framleiðslu á þáttunum um Latabæ að nýju og umfangsmikil leit að nýrri Sollu hófst því strax.

Chloe dvelur hér á landi ásamt móður sinni í sex mánuði, með sérherbergi í Latabæjarmyndverinu og einkakennara. Bandaríska leikkonan unga er þó ekki að stíga sín fyrstu skref í afþreyingariðnaðinum. Frá því að hún var sjö ára hefur hún einu sinni til tvisvar í viku sótt áheyrnarprufur vestanhafs, eða í um fimm ár, fyrir hlutverk í auglýsingum, sjónvarpsþáttum og sviðssýningum. Og þar sem fjölskyldan býr í um fimm klukkutíma fjarlægð frá New York eru langar keyrslur hluti af hennar lífi.

Til að gera sér grein fyrir hvers konar frægð bíður Chloe má ígrunda þær staðreyndir að þættirnir um Latabæ hafa verið sýndir í yfir 170 löndum, á fimmhundruð milljón heimilum. Það má skammlaust kalla að leggja heiminn að fótum sér, sérstaklega þegar maður er 11 ára.

Viðtal við mæðgurnar Chloe og Tinu Lang, um líf þeirra ytra og dvölina hér á landi má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina.

Hin nýja Solla stirða: 11 ára gamla Chloe Lang.
Hin nýja Solla stirða: 11 ára gamla Chloe Lang. Styrmir Kári
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert