Leifsstöð á sér langa hefð

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. mbl.is/Isavia

Isavia ohf. hefur vinsamlegast farið fram á að fréttamenn láti af notkun nafnsins Leifsstöð í fréttaflutningi og noti í staðinn hið rétta nafn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, styttingu þess í „FLE“ eða flugstöðin á Keflavíkurflugvelli.

Af þessu er ljóst að Isavia hefur markað sér aðra stefnu en Hafrannsóknarstofnun sem notar styttinguna Hafró, m.a. á vefnum hafro.is og Sinfóníuhljómsveit Íslands sem oft notar heitið Sinfó, m.a. þegar tónleikar eru auglýstir. Dæmin eru mun fleiri.

Ósk Isavia um að hætt yrði að nota Leifsstöð fylgdi fréttatilkynningu um bílastæðamál við flugstöðina og þar er bent á að Isavia sé eigandi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og noti aldrei nafnið Leifsstöð, enda sé það skráð firmanafn óskylds aðila „og því enginn réttur til notkunar nafnsins í tengslum við flugstöðina“.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að sé farið á vefinn leifsstod.is tengist notandinn reyndar beint á vefinn kefairport.is sem er vefur flugstöðvarinnar og í símaskránni eru mörg fyrirtæki skráð með aðsetur í Leifsstöð, þar á meðal Leifsstöð sem reyndist við nánari athugun vera sama fyrirbæri og Keflavíkurflugvöllur.

Þá má ljóst vera að notkun Leifsstöðvar sem heiti fyrir flugstöðina hefur fyrir löngu áunnið sér sess í málinu og má m.a. nefna að í frétt Morgunblaðsins 16. apríl 1987 um fyrstu gestina sem fóru um flugstöðina var flugstöðin einmitt nefnd Leifsstöð eins og iðulega hefur verið gert í fréttum hingað til og líklega hér eftir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert