Athygli vakin á fjölmenningu

Fjölmenningardagurinn er haldinn hátíðlegur í Reykjavík í dag og fjölmargt …
Fjölmenningardagurinn er haldinn hátíðlegur í Reykjavík í dag og fjölmargt við að vera í borginni í tengslum við hann. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við eigum von á því að þarna verði fulltrúar frá 90 þjóðernum,“ segir Jóna Vigdís Kristinsdóttir, verkefnastjóri á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, en í dag er fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar haldinn hátíðlegur í fimmta sinn. Dagskráin hefst við Hallgrímskirkju þar sem Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, setur hátíðina. Eftir það fer skrúðganga niður Skólavörðustíginn að Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá.

Margir koma að deginum

„Í göngunni verður heljarinnar dreki,“ segir Jóna. Hann mun vafalaust vekja athygli, því hann er um tíu metrar á lengd og dreginn áfram af tólf manneskjum.

Margir koma að skrúðgöngunni og verða um fjörutíu atriði í henni. Að baki hverju atriði eru nokkrir einstaklingar sem vinna saman að undirbúningi.

Gangan endar við Ráðhúsið en þar verða yfir fjörutíu aðilar sem sýna handverk, hönnun og kynna sína menningu. Þar geta gestir og gangandi kynnt sér framandi matargerð og fengið að bragða á ýmsu góðgæti. Í kvöld verða tónleikar í Hafnarhúsinu þar sem boðið verður upp á afríska tónlist.

Markmið dagsins er að vekja athygli á fjölmenningu á Íslandi og því sem þjóðernin mörgu hafa upp á að bjóða. Jóna segir þetta einnig tækifæri fyrir hópa til að tengjast innbyrðis, sýna sig og sjá aðra.

„Við hvetjum fólk til að slást í för með göngunni,“ segir Jóna. „Sumir halda að þetta sé bara fyrir útlendingana, en þetta er fyrir okkur öll.“

Að sögn Jónu Vigdísar Kristinsdóttur býr fólk frá um 130 löndum í Reykjavík í dag. Þátttakendur í dagskránni í dag verða meðal annars frá Taílandi, Búlgaríu, Rússlandi, Ungverjalandi, Gana, Kína og Nígeríu. Þá verður einnig fólk frá erlendum nemendafélögum, afródansarar og trommuleikarar frá Kramhúsinu ásamt félögum í félaginu Ísland-Palestína.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert