Fjölmenni fagnar fjölbreytileika

Líf og fjör ræður nú ríkjum í höfuðborginni en kl. 13 í dag var Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar settur í fimmta sinn. Markmið hátíðarinnar er að fagna fjölbreyttri menningu borgarsamfélagsins. En talið er að fulltrúar af 90 þjóðernum taki þátt í hátíðinni.

Setningarathöfnin hófst við Hallgrímskirkju en það var Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, sem setti hátíðina. Að lokinni athöfn lagði Fjölmenningarskrúðganga af stað áleiðis að Ráðhúsi Reykjavíkur.

Nú sem fyrr tók fjölmenni þátt í göngunni og þar ræður litagleðin ríkjum og þátttakendur klæðast fallegum þjóðbúningum hinna ýmsu landa.

Í Tjarnarsal ráðhússins er boðið upp á fjölþjóðlegan markað þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér menningu ýmissa þjóðlanda og á boðstólum verða þjóðlegir réttir, listmunir og annar varningur.

Í Tjarnarbíói verður boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði, Lalli töframaður, Festejo dans frá Perú, litháískan kórsöng, Capoeira afró brasilísk bardagalist og Mamandi trommuhópur frá Gíneu.  Að lokinni skemmtidagskrá verður ljóðaupplestur á ýmsum tungumálum og að því loknu stuttmyndasýning nemenda í Kvikmyndaskóla Íslands.

Um klukkan 20 í kvöld verða svo tónleikar í Hafnarhúsinu þar sem fram kemur hljómsveitin The Bangoura Band ásamt listamönnum frá Ghana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert