Hvers vegna beita karlar ofbeldi?

„Nær undantekningarlaust hætta karlar sem koma til okkar líkamlegu ofbeldi …
„Nær undantekningarlaust hætta karlar sem koma til okkar líkamlegu ofbeldi fljótlega eftir að meðferð hefst. Það tekur lengri tíma að vinna með andlegt ofbeldi, því sú vinna snýst um að breyta viðhorfum til kvenna og til þess hvernig menn takast á við vandamál,“ segir Andrés Ragnarsson sálfræðingur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í kenningum um heimilisofbeldi eru tvö meginsjónarmið ríkjandi. Annars vegar eru það femínísku sjónarmiðin um að karlar beiti ofbeldi vegna þess að þeir telji sig eiga rétt á að stjórna konum. Hitt sjónarmiðið er að áhættuþættir hafi áhrif á hegðun manna. Þar er t.d. átt við áfengis- og vímuefnaneyslu, að hafa orðið fyrir ofbeldi sem barn eða hafa orðið vitni að ofbeldi milli  foreldra, fátækt, atvinnuleysi, geðræn vandamál og fleira.

Þeir sem vinna gegn heimilisofbeldi leggja áherslu á að það sé ekki nægjanlegt að hjálpa þolandanum. Það verði líka að bjóða þeim sem beita ofbeldi hjálp til að breyta hegðun sinni og einnig þurfi að huga að börnum sem verði vitni að ofbeldi á heimilum. Eins og fram kom í frétt á mbl.is er á höfuðborgarsvæðinu í gangi tilraunaverkefni þar sem lögð er áhersla á að ræða við börnin og hjálpa þeim að vinna úr upplifun sinni.

190 karlar hafa fengið aðstoð frá 2006

Verkefnið Karlar til ábyrgðar hófst árið 1998 sem tilraunaverkefni, en frá árinu 2006 hefur karlmönnum sem beita ofbeldi verið boðin meðferð sem miðar að því að fá þá til að viðurkenna ábyrgð sína á ofbeldinu og breyta hegðun sinni. Frá árinu 2006 hafa 190 karlmenn farið í meðferð hjá Körlum til ábyrgðar.

Sálfræðingarnir Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson sjá um meðferðina samhliða öðrum störfum, en samstarfaðilar eru Velferðarráðuneytið, Jafnréttisstofa, Kvennaathvarfið, Barnaverndarstofa og Fjölskyldumiðstöðin.

Fyrirmyndin að verkefninu Karlar til ábyrgðar er sótt til Noregs, en þar hófst verkefnið Alternativ til Vold árið 1987. Norðmenn hafa mikla reynslu af því að fást við heimilisofbeldi og setja mun meiri fjármuni og mannafla í að fást við þetta þjóðfélagsmein en gert er hér á landi. Langt er t.d. síðan Alternativ til Vold fór að bjóða konum sem beita ofbeldi upp á aðstoð.

Hætta nær undantekningarlaust ofbeldi

Andrés segir að þetta úrræði hafi gefist mjög vel. „Nær undantekningarlaust hætta karlar sem koma til okkar líkamlegu ofbeldi fljótlega eftir að meðferð hefst. Það tekur lengri tíma að vinna með andlegt ofbeldi, því sú vinna snýst um að breyta viðhorfum til kvenna og til þess hvernig menn takast á við vandamál,“ segir Andrés.

Andrés segir að það þurfi ekki að koma á óvart að meðferðin skili þetta góðum árangri. Karlarnir séu jú að koma sjálfviljugir í meðferð og vilji taka á sínum málum. „Þegar ég segi sjálfviljugir þá verð ég að hafa þann fyrirvara á að stundum liggur einhver þvingun að baki, t.d. vega skilnaðar eða þrýstings frá barnaverndarnefnd um að viðkomandi geri eitthvað í sínum málum.“

Sálfræðingarnir ræða við eiginkonur mannanna í upphafi og lok meðferðar, m.a. til þess að fá staðfestingu frá þeim um árangur meðferðar. Háskóli Íslands er núna að hefja rannsókn á árangri verkefnisins Karlar til ábyrgðar.

Verkefnið Karlar til ábyrgðar hefur einnig verið í boði fyrir karlmenn á landsbyggðinni. M.a. hefur karlmönnum verið boðið að ræða við sálfræðing í gegnum Skype. Þá er verið að undirbúa að útvíkka verkefnið og bjóða meðferð fyrir konur sem beita karla ofbeldi inni á heimilum.

Andrés segir að þau mál sem hann hafi fengið til meðferðar eigi það sammerkt að um sé að ræða karla sem beiti bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi og oft einnig kynferðislegu ofbeldi.

Aldrei hægt að réttlæta ofbeldi

Þungamiðja meðferðarinnar er að karlarnir taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun. Þeir verða að horfast í auga við þá reglu að það er aldrei hægt að réttlæta ofbeldi gegn maka.  Meðferðin gengur út á að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við það sem upp kann að koma í samskiptum.

Andrés segir augljóst að aðeins lítill hluti af körlum sem beita ofbeldi á heimlinum leiti sér hjálpar. Þeir sem standa að verkefninu Karlar til ábyrgðar hafa áætlað að árlega verði 1100 konur hér á landi fyrir ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka. Þegar haft er í huga að 190 karlar hafa leitað sér hjálpar í gegnum verkefnið á sjö árum er augljóst að margir hafa það viðhorf að þeir þurfi ekki að leita sér hjálpar. Samtöl blaðamanns við lögreglumenn staðfesta líka að margir ofbeldismenn eru ekki tilbúnir til að horfast í auga við að þeir eigi við vandamál að stríða.

Rannsakar frásagnir karla sem beita ofbeldi

Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi vinnur núna að mastersverkefni um karla sem beita konur ofbeldi, en rannsóknin er byggð á gögnum úr verkefninu Karlar til ábyrgðar. Allar upplýsingar hafa verið gerðar ópersónugreinanlegar.

Ingibjörg skoðar þær upplýsingar sem karlarnir hafa gefið í fyrstu viðtölum, m.a. um bakgrunn þeirra. Tilgangurinn er að reyna að finna hvort karlarnir eiga eitthvað sameiginlegt og hvort það séu einhverjir áhættuþættir sem geta skýrt hegðun þeirra. Með því er ekki verið að leita að réttlætingu á ofbeldi heldur verið að skoða áhættuþættina til þess að geta dregið úr og komið í veg fyrir að ofbeldi sé beitt, sem hlýtur að vera það sem við viljum.

Ingibjörg vonast eftir að rannsóknin leiði fram nýjar upplýsingar um bakgrunn mannanna og hvort ákveðnir áhættuþættir séu ríkjandi innan hópsins. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að karlar sem hafa orðið vitni að ofbeldi milli foreldra sem börn séu líklegri til að beita ofbeldi sjálfir á fullorðinsárum. Eins ætlar Ingibjörg að skoða hvernig karlarnir lýsa ofbeldinu og hvort að þær lýsingar séu ólíkar þeim sögum sem konur segja í Kvennaathvarfinu.

Sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson (standandi) hafa á …
Sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson (standandi) hafa á síðustu sjö árum aðstoðað 190 karla sem sótt hafa sér hjálp í gegnum verkefnið Karlar til ábyrgðar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert