Segja látinn mann höfuðpaurinn

Aðalmeðferð í stórfelldu fíkniefnamáli hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. …
Aðalmeðferð í stórfelldu fíkniefnamáli hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sjö eru ákærðir, fimm Íslendingar og tveir Litháar. mbl.is/Rósa Braga

Tveir sakborninga sem ákærðir eru fyrir stórfelldan innflutning á amfetamíni nefndu við aðalmeðferð málsins höfuðpaurinn í málinu, og sagði annar það vera óhætt núna þar sem hann hafi látist fyrir fáeinum vikum.

Í málinu eru sjö ákærðir fyrir innflutning á rúmlega 19 kílóum af amfetamíni og 1.710 ml af amfetamínbasavökva. Fíkniefnin fundust með hjálp fíkniefnaleitarhunda við leit tollgæslu í póstmiðstöðinni á póstsendingum sem borist höfðu til landsins frá Danmörku.

Aðalmeðferð hófst í morgun við Héraðsdóm Reykjavíkur og stendur í allan dag. Í ákæru segir að mennirnir hafi að beiðni óþekkts manns lagt á ráðin um innflutninginn. Tveir sakborninga nefndu óþekkta manninn við skýrslutöku fyrir dóminum. Sögðu þeir að Ársæll Snorrason hefði átt fíkniefnin og skipulagt innflutninginn. Spurður að því hvers vegna hann nefndi höfuðpaurinn núna en ekki hjá lögreglu sagði einn sakborninga, Jónas Fannar Valdimarsson, að það væri óhætt í dag þar sem Ársæll lést fyrir nokkrum vikum.

Fimm sakborninga eru Íslendingar en tveir eru Litháar. Þrír Íslendinganna, sem ákærðir eru sem aðalmenn, játuðu í morgun sök að hluta en neituðu alfarið að hafa skipulagt smyglið. Allir segjast þeir hafa verið aukaleikarar í innflutningnum og benda hver á annan þegar spurt er hver hafi átt stærsta þátt í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert