Skipuleggja á hvert sveitarfélag

Reykjavíkurborg
Reykjavíkurborg www.mats.is

Gagnrýnisraddir heyrðust á kynningarfundi á nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar þess efnis að nær væri að skipuleggja höfuðborgarsvæðið í heild í einu aðalskipulagi.

„Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa með sér samstarf á sviði skipulagsmála, en þeim er óheimilt samkvæmt lögum að hafa eitt aðalskipulag fyrir öll sveitarfélögin,“ segir Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri Reykjavíkur. „Hvert sveitarfélag þarf að hafa sitt aðalskipulag.“

Sveitarfélögin á höfuðborgsvæðinu hafa hins vegar með sér samstarfsvettvang undir merkjum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Hrafnkell Á. Proppé starfar sem svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins á vegum þeirra samtaka, en hann starfar að endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

Svæðisskipulag fyrir öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu

„Það er í gildi svæðisskipulag sem leggur grófu línurnar. Það var staðfest 2002, en á því hafa verið gerðar ýmsar breytingar,“ segir Hrafnkell. „Sveitarfélögin eiga að  vinna í takt við það. Rétt eins og sveitarfélög vinna aðalskipulag þá er að fara af stað heildarendurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.“

Hrafnkell segi þá vinnu þannig á veg komna að  svæðisskipulagsnefnd hafi samþykkt verkefnislýsingu þar sem verkefnið er sett upp með tilliti til viðfangsefnisins og tíma, en miðað er við að nýtt svæðisskipulag taki gildi í lok árs 2014.

Aðspurður segir Hrafnkell vissulega hafa verið rætt að auka samstarf sveitarfélaganna á sviði skipulagsmála en að samstarf sé engu að síður til staðar. „Í svæðisskipulagsnefnd sitja tveir fulltrúar frá hverju sveitarfélagi,“ segir Hrafnkell, og bendir á kafla 7.1 úttektarskýrslu á stjórnkerfi borgarstjórnar Reykjavíkur, en hann fjallar um samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í skipulagsmálum.

„Síðustu tvö ár hafa sveitarfélög innan SSH verið að skoða hvað mætti betur fara í þessu samstarfi. Að baki þeirri skoðun er samkomulag um endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, sem sveitarfélögin gerðu í ágúst á síðasta ári,“ segir Hrafnkell.

Samstarf sveitarfélaganna hefur aukist

„Samstarf sveitarfélaganna hefur aukist hægt og rólega á ýmsum sviðum og eru skipulagsmálin þar ekki undanskilin,“ segir Hrafnkell. „Segja má að samstarf sveitarfélaga í SSH hafi byrjað utan um fyrsta svæðisskipulagið með skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins. Þannig að skipulagsmál hafa alltaf verið undirliggjandi í þessu samstarfi. Sveitarfélögin unnu þó of mikið hvert í sínu horni á uppgangstímunum.“

Hann segir hins vegar að nú sé komið annað hljóð í strokkinn, en hvað gerist í næstu uppsveiflu sé ekki hægt að spá um, en það verði þó örugglega meiri samvinna en í þeirri síðustu.

„Skipulagslögin frá 2010 fela í sér ákveðnar breytingar á svæðisskipulagi. Nú er skylda að í gildi sé svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu en það var valfrjálst áður. Einnig hefur hvert og eitt sveitarfélag í raun neitunarvald um breytingar á því,“ segir Hrafnkell. Í því samhengi má benda á að andstaða hreppsnefndarfulltrúa Kjósarhrepps við nýjan Landspítala stöðvaði tímabundið breytingar á því skipulagi. „Þetta neitunarvald eitt og sér fær sveitarfélögin til að vinna betur saman að ákvörðunum sem snerta sameiginleg skipulagsmál,“ segir Hrafnkell.

Hann telur vilja fyrir auknu samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þessum málaflokki, og bendir á þá stöðu sem hann gegnir því til stuðnings. „Samkomulagið sem var undirritað í ágúst ber einnig þess merki. Sveitarfélögin vilja vinna metnaðarfullt svæðisskipulag þar sem áhersla verður einnig lögð á eftirfylgni, t.d. með sameiginlegri birtingu á þróun ýmissa lykiltalna á sviði skipulagsmála,“ segir Hrafnkell. 

„Þróunin á svæðisskipulagsstiginu er í þá átt að svæðisskipulag er að verða stefnumótandi þróunaráætlun frekar hefðbundið landnotkunarskipulag. Þannig hefur það verið í flestum borgum hins vestræna heim sem samanstanda af nokkrum sveitarfélögum. Þar hafa verið þróaðar leiðir til að brúa bilið milli stefnumótunar og framkvæmda með setningu árangursmælikvarða, gerð framkvæmdaáætlana og útgáfu faglegra leiðbeininga sem sýna ákjósanlegar útfærslur. Þannig leiðbeiningar hefur skort hérlendis hingað til,“ segir Hrafnkell.

Sveitarfélögin sem standa að SSH eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes, Garðabær, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert