Ferðamenn sækja í Þríhnúkagíg

Þríhnúkagígur er magnað náttúrufyrirbæri
Þríhnúkagígur er magnað náttúrufyrirbæri Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við bjóðum upp á fjórar ferðir á dag í allt sumar alveg fram í september,“ segir Björn Ólafsson, forsvarsmaður Þríhnúka, sem býður upp á skipulagðar ferðir ofan í Þríhnúkagíg, sem er kvikuþró kulnaðs eldfjalls.

Farið er ofan í gíginn með lyftu og kostar ferðin 37 þúsund krónur. Um 15 manns komast í hverja ferð en þeir dvelja í gígnum í um klukkustund. 

Ferðirnar hafa vakið athygli erlendis en fjallað er um ferðirnar á vef The Daily Mail í gær. Þar segir einnig að á níu daga tímabili, frá 12-20 júní sé boðið sérstaklega upp á miðnæturskoðunarferðir.  

Björn segir flesta gesti gígsins vera erlenda ferðamenn en íslendingar hafa í auknum mæli farið að kynna sér ferðina.  

„Það er alltaf þannig að fólk er frekar tilbúið að borga fyrir að skoða hluti þegar þeir eru í útlöndum en íslendingum hefur samt verið að fjölga, sem koma í þessar ferðir.“ 

Þríhnúkagígur er staðsettur um 4 km frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum og er um klukkutíma gönguleið frá bílastæðum að gígnum.  Björn segir maí mánuð hafa verið erfiðan enda setti veðrið strik í reikninginn en hann er bjartsýnn á sumarið framundan.

„Í júlí í fyrra var mjög mikið bókað, og stefnan er að bjóða upp á þessar ferðir fram til 10. september.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert