Tillaga um 215 þúsund tonna þorskkvóta

Þorskur.
Þorskur. mbl.is/RAX

Hafrannsóknarstofnun kynnti í dag stofnmat og veiðiráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Samkvæmt stofnmati er viðmiðunarstofn þorsks árið 2013 metinn um 1170 þúsund tonn og hrygningarstofninn metinn um 480 þúsund tonn. Hrygningarstofninn er nú þrefalt stærri en þegar hann var í lágmarki árin 1992-1994 og viðmiðunarstofninn stærri en hann hefur verið síðustu þrjá áratugi. Samkvæmt aflareglu verður aflamark þorsks 215 þúsund tonn fiskveiðiárið 2013/2014.

Í fyrra var mikill samdráttur í ýsukvóta líkt og árin þar á undan. Stofninn hefur minnkað hratt undanfarinn ár þegar stórir og meðalstórir árgangar hafa horfið úr stofninum og litlir árgangar komið í staðinn. Samkvæmt aflareglu verður leyfilegt að veiða 38 þúsund tonn fiskveiðiárið 2013/2014 en er 36 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ufsa 57 þúsund tonn fiskveiðiárið 2013/2014 en er 50 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.

Hafrannsóknarstofnun ráðleggur að aflamark gullkarfa verði 52 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári en aflamarkið á yfirstandandi fiskveiðiárið er 45 þúsund tonn. Árgangar frá árunum 1997-2003 eru nú metnir stærri en áður var talið og koma í auknum mæli inn í veiðistofninn.

Lagt er til að veidd verði 87 þúsund tonn af sumargotssíld á næsta fiskveiðiári en aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs er 64 þúsund tonn. Sem kunnugt er hefur frumdýrasýking leitt til hærri dánartíðni í síldarstofninum á undanförnum árum. Sýking mælist ennþá há í stofninum en greining hefur leitt í ljós að dauði vegna sýkingar í stofninum sé minni en áður hefur verið talinn og hafi aðallega átt sér stað faraldursins, þ.e. á árunum 2009-2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert