Kortlögðu ferðir meints smyglara

Maðurinn flutti efnini innvortis í 45 einingum.
Maðurinn flutti efnini innvortis í 45 einingum. Arnaldur Halldórsson

Saksóknari fer fram á að Héraðsdómur Reykjaness dæmi tvo litháíska karlmenn til tólf og átján mánaða fangelsisrefsingar vegna aðildar að innflutningi á tæpu hálfu kílói af kókaíni til landsins. Annar þeirra kom með efnið innvortis frá London í mars síðastliðnum.

Í framburði lögreglumanns sem gaf skýrslu fyrir dómi í morgun kom fram að rannsókn hafi hafist í nóvember á síðasta ári. Þá hafi lögreglunni borist upplýsingar frá Tollstjóra um ákveðið ferðamynstur hjá tveimur útlenskum karlmönnum. „Eftir þetta tók við eftirfylgni dag og nótt. Haft var auga með honum dag og nótt í rúma viku, hann kortlagður og skráð hverja hann hitti og hvað hann gerði. Þá kom fram mynstur sem gaf til kynna að þetta væri fíkniefnatengt,“ sagði lögreglumaðurinn og átti við annan sakborninga.

Mennirnir voru svo handteknir á hóteli í Reykjavík í mars.

Þeir eru ekki taldir hafa staðið á bak við innflutninginn heldur sé það íslenskur karlmaður sem einnig var ákærður í málinu. Þáttur hans var hins vegar klofinn frá í morgun og verður réttað yfir honum síðar. Þá eru vísbendingar um tengsl við litháíska karlmenn sem dæmdir voru fyrir aðild að innflutningi á 374 grömmum af kókaíni árið 2011.

Keypti flugmiða og kom með kjúkling

Annar mannanna, burðardýrið, játaði brot sitt fyrir dóminum í morgun og bar um þátt hins mannsins einnig. Fór saksóknari fram á tólf mánaða fangelsi yfir honum. Hann taldi þátt hins mannsins veigameiri enda hefði hann keypt farmiða burðardýrsins og hægðarlosandi lyf. Fór hann fram á 18 mánaða fangelsi yfir honum.

Sá síðarnefndi neitar sök í málinu og sagði verjandi hans fyrir dómi í morgun að ekkert hafi komið fram um sekt mannsins. Hann hafi ekki útvegað efnin ytra, fjármagnað kaupin á þeim eða búið um þau. „Hans aðkoma er ekki önnur en liggur fyrir, að kaupa flugmiða og koma með kjúkling og lyf.“

Benti hann á að maðurinn hefði fjórum sinnum komið hingað til lands og í öll skiptin hafi hann verið tekin í ítarlega skoðun í tollinum. Aldrei hafi hins vegar fundist fíkniefni á honum. „Það að kaupa flugmiða var kannski óheppilegt fyrir hann, en eitt og sér dugar það ekki til sakfellingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert