Færri falla á skotprófi

Um 900 veiðimenn eiga eftir að fara í skotpróf vegna hreindýraveiða en alls munu 1229 veiðimenn halda til hreindýraveiða í haust. Á síðasta ári tóku gildi lög um verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða og eru prófin í gangi þessa dagana hjá öllum skotfélögum á landinu. Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 300 veiðimenn lokið prófinu og því nálægt 900 veiðimenn sem eiga eftir að þreyta prófið, samkvæmt frétt á vef Umhverfisstofnunar.

Lokafrestur til þess að taka skotprófið er 30. júní og því má reikna með að mikil örtröð verði á skotvöllum landsins næstu daga. 

Af öllum teknum prófum féllu um 20%  en á síðasta ári var hlutfallið um 30%. Það eru því umtalsvert færri sem falla á prófinu þetta annað ár sem prófið er haldið. Veiðimenn hafa þrjár tilraunir til þess að ná prófinu en afar fáir féllu í öllum þremur tilraununum á síðasta ári, eða um 2%, segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert