Staða ríkissjóðs verri en talið var

Sigmundur Davíð og Bjarni Benedinktsson og fundinum í Þjóðmenningarhúsinu í …
Sigmundur Davíð og Bjarni Benedinktsson og fundinum í Þjóðmenningarhúsinu í dag Mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sögðu á fundi um stöðu og horfur í ríkisfjármálum í Þjóðmenningarhúsinu í dag að nauðsynlegt væri að stöðva skuldasöfnun ríkisins. 

Þeir sögðu engan veginn búið að ná afgangi í ríkisrekstrinum og þeirri vegferð verði ekki lokið nema með því að grípa til töluverðra ráðstafana í ríkisfjármálum. Að óbreyttu er útlit fyrir að rekstrargrunnur ríkissjóðs verði neikvæður um 31 milljarð, en ekki 4 milljarða eins og áður var talið. Afkoma ríkissjóðs á rekstrargrunni á næsta ári, að öllu óbreyttu, verður ekki jákvæð um 18 milljarða eins og áður var talið, heldur neikvæð um 9 milljarða króna.

„Horfurnar hvað varðar rekstur ríkisins eru töluvert lakari að óbreyttu en lesa mátti úr nýjustu spám,“ sagði Sigmundur Davíð. „Það virðist ljóst að fjárlög þessa árs virðast engan veginn ganga eftir,“ sagði Sigmundur Davíð.

Miðað við forsendur um útgjöld, tekjur og skattabreytingar þá sé staða ríkissjóðs allt önnur og töluvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Sé tekið tillit til boðaðra útgjaldaaukninga fyrri ríkisstjórnar þá versnar staðan enn. Tekjur ríkisins eru minni en talið var þar sem arðgreiðslur og söluhagnaður verður ekki sá sem talið var.

Útgjöld verða ennfremur meiri en gert var ráð fyrir, einkum vegna útgjaldaaukningar í lok síðasta kjörtímabils. Allt þetta, til viðbótar við fyrirséða gjaldfærslu á 13 milljarða króna framlagi til Íbúðalánasjóðs, gæti leitt af sér allt að 27 milljarða króna verri afkomu en talið var. Bygging nýs Landspítala hafi svo áhrif til enn frekari skekkju í rekstri ríkisins.

Þeir sögðu tilgang þessa fundar fyrst og fremst þann að draga upp þá mynd sem er í stöðu ríkisfjármálanna í upphafi þeirrar vegferðar sem ríkisstjórnin á fyrir höndum.

Hvorki Sigmundur né Bjarni vildu gefa út í hverju sá niðurskurður sem nauðsynlegur verði til að ná endum saman í rekstri ríkissjóðs sé, en lögðu áherslu á að aukinn hagvöxtur væri leiðin út úr þeim vanda sem er til staðar, en ekki eingöngu niðurskurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert