Byrjað á öfugum enda

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það sem vekur manni ugg er það ef menn byrja á öfugum enda. Byrja á því að afsala ríkissjóði miklum tekjum eða taka á hann aukin útgjöld og ætla svo að fara að sauma saman ríkisfjármálaáætlun í framhaldinu. Væri ekki hyggilegra að hafa þetta í hinni röðinni, leggja fyrst grunninn að ríkisfjármálunum og sjá svo hvaða svigrúm menn hafa varðandi tekjur og gjöld? Eða að minnsta kosti að gera þetta samtímis?“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í umræðum á Alþingi í morgun og beindi hann orðum sínum til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Spurði hann ráðherrann hvort ekki væri mögulegt að hann gerði þinginu einhverja grein fyrir mati ríkisstjórnarinnar á þróun ríkisfjármála til meðallangs tíma áður og hvernig markmiði um jákvæðan heildarjöfnuð yrði viðhaldið á næsta ári en sumarþinginu lyki.

„Við erum enn með ríkissjóð í halla vegna þess að það hefur ekki tekist að skapa hagvöxt,“ sagði Bjarni í svari sínu og bætti við að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu allar að því að reyna að ýta undir hagvöxt, auka bjartsýni í hagkerfinu og fá fólk til þess að fjárfesta sem myndi smám saman skila sér í fjölgun starfa og nýjum fjárfestingum. Hann sagði ekki rétt að tala um að ríkið væri að afsala sér tekjum. Fyrri ríkisstjórn hefði þvert á móti áskilið sér of stóran hlut í rekstri atvinnulífsins. Sérstaklega í sjávarútvegi.

Steingrímur sagði það gamalkunnugt ráð hjá nýjum ráðamönnum að reyna að draga upp dökka mynd af stöðunni. Bjarni sagði á hinn bóginn að það mætti allt eins segja að það væri gamalkunnugt ráð hjá þeim sem áður voru í ríkisstjórn að reyna að fegra stöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert