Álftin á Hrísatjörn komin með unga

„Álftin er komin með þrjá unga út á tjörn en þegar ég ætlaði upp að hreiðrinu til þess að athuga hvort allt væri farið úr því þá kom hún bara á móti mér,“ segir Haukur Snorrason en hann hefur að undanförnu tekið myndir af álft sem missti egg úr sér á ísilagða Hrísatjörn í friðlandi Svarfdæla við Dalvík.

Haukur segir ekki útilokað að annar ungi leynist í hreiðrinu þar sem álftin ver það enn með kjafti og klóm. Á sínum tíma merkti Haukur eggið sem datt frá álftinni með fatatússpenna áður en hann kom því aftur fyrir í hreiðrinu. Hann ætlar að freista þess í kvöld að kíkja ofan í hreiðrið til þess að athuga hvort það sé eitt þeirra sem klakist hefur út.

Aðspurður hvernig ungarnir hafi það segir Haukur: „Þetta virðist hafa endað vel því hún er komin með þrjá unga og þeir virðast hafa það ágætt.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Ver hreiðrið með kjafti og klóm

Eggið ennþá munaðarlaust

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert