Enginn samningur í ungfrú Ísland

Ungfrú ísland 2009. Guðrún Dögg Rúnarsdóttir, ungfrú Ísland, ásamt Magdalenu …
Ungfrú ísland 2009. Guðrún Dögg Rúnarsdóttir, ungfrú Ísland, ásamt Magdalenu Dubik, sem varð í öðru sæti, og Sylvíu Dagmar Friðjónsdóttur sem hafnaði í þriðja sæti í keppninni. Jakob Fannar Sigurðsson

„Það verður enginn samningur í ár. Það verður ekki skrifað undir samning á minni vakt,“ segir Rafn Rafnsson, framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland 2013, aðspurður hvort samningur verði gerður við þátttakendur keppninnar. Hann ítrekar að slíkan samning þurfi ekki. Keppnin Ungfrú Ísland verður haldin að nýju 14. september eftir tveggja ára hlé. 1341 umsókn hefur borist, frá báðum kynjum og fólki á öllum aldri. Skilyrðin fyrir þátttöku eru þó m.a. þau að vera á aldrinum 18-24 ára. „Við þurfum að sjá hvaða markmið þær hafa í lífinu en stelpurnar þurfa að hafa eitthvað í kollinum,“ segir Íris Thelma Jónsdóttir, starfsmaður fegurðarsamkeppninnar.

Árið 2009, þegar Arnar Laufdal var framkvæmdastjóri keppninnar, þurftu keppendur að skrifa undir samning um þátttöku. 

„Það er ekkert búið að ákveða það og mér finnst það frekar ólíklegt,“ segir Rafn aðspurður hvort keppendur í ár munu koma fram á nærfötunum. Ekki er búið að setja niður dagskrá keppninnar.  

Keppnin svarar eftirspurn

„Það mega allir hafa sína skoðun á þessu,“ segir Rafn um þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst um keppnina eftir að skráning hófst. Hann greinir mikinn áhuga á keppninni og segir fullt af fólki vilja taka þátt og fylgjast með slíkri keppni. „Við erum líka að svara eftirspurn.“

Þekktir einstaklingar hafa skráð sig í keppnina til þess eins að mótmæla henni. Þeirra á meðal er þingkonan Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri Fréttatímans, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta og Hildur Lilliendahl.

Eini tilgangurinn að finna fulltrúa fyrir Ungfrú heim 

„Eini tilgangur með keppninni er að finna keppanda fyrir Íslands hönd til að taka þátt í Miss World,“ segir Rafn og bendir á að þeir skilmálar sem séu settur þar sé einnig farið eftir í keppninni um ungfrú Ísland. Þátttakendur verða m.a. að vera á aldrinum 18 til 25 ára, ógiftir og barnlausir. 

Rafn segist sjálfur hafa upplifað keppnina á jákvæðan hátt og myndi sjálfur leyfa dóttur sinni að taka þátt í slíkri keppni ef hún myndi vilja það. 

Tímaleysi Arnars Laufdal, eiganda keppninnar stóð í vegi fyrir því að keppnin var haldin í fyrra, segir Rafn. Rafn vissi ekki til þess að keppnin Herra Ísland yrði haldin í ár. 

1341 vilja verða Ungfrú Ísland

„Hluti af umsóknunum er bara djók, til dæmis þar sem konur eru komnar yfir aldurstakmörk. Strákar hafa líka sótt um, en það er sem betur fer bara minnihluti,“ segir Íris Thelma Jónsdóttir sem tók þátt í Ungfrú heimur 2012 og tekur á móti umsóknum í keppnina. Alls hefur borist 1341 umsókn í keppnina. Íris Thelma giskar á að um 300 umsóknir uppfylli ekki skilyrði.

„Þetta hefur áður tekið stökk þegar umfjöllunin hefur verið svona rosalega góð,“ segir Íris Thelma . Hún segir að umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið hafi fjölgað umsóknum sem „eitthvað er varið í“.

„Fólk verður bara að fá að hafa sínar skoðanir fyrir sig eins og ég hef mínar. Það hefur alltaf verið gagnrýni á þetta,“ segir Íris Thelma aðspurð hvað henni þyki um þá gagnrýni sem keppnin hefur sætt.   

Skilyrðin fyrir þátttöku í keppninni eru þau að stúlkurnar þurfa að vera á aldrinum 18 til 24 ára, ógiftar og barnlausar. Auk myndar sem þær senda inn eru tekin viðtöl við þær. „Við þurfum að sjá hvaða markmið þær hafa í lífinu en stelpurnar þurfa að hafa eitthvað í kollinum. Við þurfum að finna stelpu sem er það ákveðin og með bein í nefinu að hún höndli alla þá vinnu sem býður hennar úti. Þetta er heljarinnar vinna.“

„Fáránlega vel menntaðar“

„Stelpurnar sem hafa verið í Ungfrú Ísland undanfarið hafa verið að gera hrikalega góða hluti í lífinu og eru fáránlega vel menntaðar og eru glæsilegar konur og sterkir einstaklingar. Þetta er ekki bara fallegt bros,“ segir Íris Thelma sem er í óða önn að fara yfir umsóknir en fljótlega verður ekki tekið við fleiri umsóknum. 

Íris Thelma Jónsdóttir
Íris Thelma Jónsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert