„Getið treyst á Bretland sem bandamann“

Frá London.
Frá London. mbl.is/Hjörtur

„Ég vil fullvissa ykkur um að sama hvaða leið þið veljið getið þið treyst á Bretland sem bandamann og vin,“ sagði David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, í ræðu sem hann flutti á opnum umræðufundi í Háskóla Íslands í dag og vísaði þar til þess hvort Ísland kysi að ganga í Evrópusambandið eða standa áfram utan þess.

Lidington fjallaði í ræðu sinni einkum um veru Bretlands í Evrópusambandinu og lagði áherslu á að bresk stjórnvöld teldu hagsmunum landsins best borgið innan sambandsins. Hins vegar væri ljóst að koma þyrfti á miklum umbótum innan þess og þá ekki síst á evrusvæðinu. Efnahagserfiðleikarnir innan Evrópusambandsins sýndu ennfremur nauðsyn þess að auka samkeppnishæfni þess og þá liti fólk innan sambandsins í vaxandi mæli á það sem eitthvað sem væri beint gegn hagsmunum þess frekar en eitthvað sem ynni að þeim.

Ráðherrann lagði áherslu á að Bretland og Ísland ættu samleið í ýmsum málum eins og til dæmis sjávarútvegi. Bæði Íslendingar og Bretar gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að ákvarðanir í þeim efnum væru teknar sem næst þeim sem þær hefðu áhrif á. Þá gerðu Bretar sér grein fyrir því að það skipti Íslendinga máli að tekið væri tillit til sérstöðu þeirra. Bretar hafi fyrir vikið stutt umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og hvatt sambandið til þess að sýna Íslendingum eins mikinn skilning og hægt væri í samningsafstöðu sinni.

„Það þýðir ekki að það þurfi ekki að fara eftir einhverjum reglum en það samrýmist því mati okkar á Evrópusambandinu að þær reglur ættu að þjóna þeim tilgangi að stýra skilvirkum innri markaði en ekki kæfa niður framtaksemi og staðbundna hagsmuni eins og raunin virðist hafa verið til þessa,“ sagði Lidington. Finna þyrfti jafnvægið á milli frekari samruna innan sambandsins og sveigjanleika og þar væru Ísland og Bretland í sama liði.

Ráðherrann sagði bresk stjórnvöld vilja sjá Evrópusamband sem hentar 21. öldinni og þau væru að vinna að því með samstarfsaðilum sínum að tryggja það með hagsmuni allra íbúa sambandsins í huga. „Ef Ísland vill verða aðili að slíku sambandi myndum við bjóða landið hjartanlega velkomið og styðja inngöngu þess, en ef þið veljið að hafa aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án fullrar aðilar þá er það afstaða sem við getum einnig skilið.“

Ræða David Lidington í heild

David Lidington, Evrópuráðherra Bretlands.
David Lidington, Evrópuráðherra Bretlands. Wikipedia/Janwikifoto
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert