Blöðin segja allt orðið stjórnlaust

„Það tala auðvitað allir um þetta og ég held það hafi komið mörgum á óvart hversu fjölmenn mótmælin eru,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem staddur er í Ríó de Janeiro, þar sem mikið hefur borið á mótmælum undanfarna daga.

Hannes er staddur í Ríó vegna rannsóknarsamstarfs við brasilískar stofnanir um umhverfismál og dvelur í Copacabana en þangað hafa mótmælin ekki enn náð. „En rakarinn minn, sem ég fór í klippingu til áðan, tjáði mér að það væru fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir í Copacabana á morgun. Ég spurði hann, því rakarar vita nú allra manna best, ásamt leigubílstjórum, hvers vegna mótmælin héldu áfram þrátt fyrir að orðið hafi verið við kröfum mótmælenda um að hækka ekki fargjald almenningssamgangna. Hann sagði mér að fólk væri að mótmæla spillingunni í landinu og það kemur mér ekki á óvart því hér er mikil spilling.“

Mótmælin eru þau mestu í tuttugu ár í Brasilíu og talið er að í gærkvöldi og nótt hafi ein milljón hið minnsta tekið þátt í mótmælunum í meira en hundrað borgum og bæjum. „Það er auðvitað mikið um þetta skrifað og fréttin í aðalblaðinu hérna, O Globo, var á þá leið að allt væri orðið stjórnlaust. Hér hefur orðið mikill uppgangur í hagkerfinu og miklar olíutekjur en einhvern veginn virðist allt lenda í vösum stjórnmálamanna. Og það er mjög áberandi í þessum mótmælaaðgerðum að mótmælendur afþakka algjörlega stuðning allra stjórnmálaflokka, þá vegna þess að þeir virðast allir jafn spilltir.“

Hópar sem aðeins vinna skemmdarverk

Af tali sínu við íbúa Ríó segist Hannes merkja að fólk sé orðið mjög þreytt á spillingunni í landinu sem sé blygðunarlaus og opin. Því njóti mótmælendur víðtæks stuðnings. „Flestir eru þeir að mótmæla spillingu sem er landlæg og Brasilíubúar verða að taka á. En síðan eru reyndar einnig fámennir hópar sem eingöngu eru að vinna skemmdarverk, kasta bensínsprengjum að opinberum húsum og því um líkt. Mér sýnist sem mönnum lítist ekkert á þann annars fámenna hóp. Og það er mjög áhugavert að horfa á sjónvarpsfréttirnar því sjónvarpsstöðvarnar eru með þyrlur sem sveima yfir og taka myndir af þessu. Þannig að það eru mjög greinilega hópar sem aðeins eru að vinna skemmdarverk. Það er svo eitt sem mönnum finnst mjög athugavert og það er að þeir bera grímur. Það þýðir auðvitað að það eru ábyrgðarlausir og nafnlausir.“

Ekkert lát er á mótmælum í Brasilíu og búist við að þau verði afar fjölmenn í kvöld og nótt. Hannes heldur hins vegar til Galapagos-eyja vegna rannsóknarsamstarfsins snemma í fyrramálið og kemur því ekki til með að upplifa mótmælin í Copacabana. „Leigubíllinn sem ég tek frá Copacabana mun þó þurfa að fara í gegnum miðborgina snemma um morguninn þannig að ég vona að það verði ekki neinar óeirðir á þeim tíma.“

Frá mótmælunum í Brasilíu.
Frá mótmælunum í Brasilíu. AFP
Hannes Hólmsteinn Gissurarson í Ríó de Janeiro.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson í Ríó de Janeiro.
Frá mótmælunum í Brasilíu.
Frá mótmælunum í Brasilíu. AFP
Frá mótmælunum í Brasilíu.
Frá mótmælunum í Brasilíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert